Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 07. júní 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun
Upphitun fyrir EM alls staðar: D-riðill
England, Króatía, Skotland og Tékkland
Englendingar þykja líklegir til afreka.
Englendingar þykja líklegir til afreka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kane og Kári Árnason í baráttu.
Kane og Kári Árnason í baráttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður Maguire heill heilsu?
Verður Maguire heill heilsu?
Mynd: EPA
Luka Modric og Zlatko Dalic, þjálfari Króatíu.
Luka Modric og Zlatko Dalic, þjálfari Króatíu.
Mynd: Getty Images
Króatía fór í úrslitin á HM 2018.
Króatía fór í úrslitin á HM 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skotland komst á EM í gegnum umspilið.
Skotland komst á EM í gegnum umspilið.
Mynd: Getty Images
Scott McTominay, miðjumaður Skotlands.
Scott McTominay, miðjumaður Skotlands.
Mynd: Getty Images
Kieran Tierney er strangheiðarlegur.
Kieran Tierney er strangheiðarlegur.
Mynd: Getty Images
Tomas Soucek er einnig strangheiðarlegur.
Tomas Soucek er einnig strangheiðarlegur.
Mynd: Getty Images
Hvað gera Tékkarnir í sumar?
Hvað gera Tékkarnir í sumar?
Mynd: Getty Images
Evrópumótið í fótbolta hefst í þessari viku! Gleðilega hátíð.

Sumarið 2016 var skemmtilegasta sumar í manna minnum á Íslandi; pirringur Ronaldo, sigurinn á Austurríki, Gummi Ben og auðvitað sigurinn á móti Englandi. Svo má auðvitað ekki gleyma Víkingaklappinu.

Ísland var fimm mínútum frá því að komast á þriðja stórmótið í röð en draumar okkar urðu að engu á svipstundu gegn Ungverjalandi. Hugsum ekki meira um það; Evrópumótið er að hefjast. Það er spennandi stórmót framundan og munum við á næstu dögum skoða riðlana sex fyrir mótið.

Núna er það D-riðillinn.

D-riðill
England
Króatía
Skotland
Tékkland

Riðillinn verður spilaður í: London og Glasgow.

England:
Lið sem margir Íslendingar munu styðja núna þegar við erum ekki með á mótinu. Er fótboltinn loksins að koma heim? England hefur aldrei unnið EM áður og er besti árangur liðsins þriðja sæti 1968 og 1996.

Núna er liðið heldur betur spennandi með leikmenn eins og Mason Mount, Phil Foden, Jadon Sancho, Marcus Rashford og Jude Bellingham. Þessi næsta kynslóð með Harry Kane sem stærstu stjörnu liðsins. Liðið fór í undanúrslit á HM 2018 þar sem liðið fór mjög auðvelda leið, það er ekki hægt að segja annað. Leiðin að úrslitum EM verður líklega erfiðari en það verður gaman að fylgjast með Englendingum. Harry Maguire og Jordan Henderson, tveir gríðarlega mikilvægir leikmenn liðsins, hafa verið að glíma við meiðsli í aðdraganda mótsins og Englendingar þurfa á þeim að halda í góðu standi.

Hryggjarsúlan:
Jordan Pickford (markvörður Everton)
Harry Maguire (varnarmaður Manchester United)
Jordan Henderson (miðjumaður Liverpool)
Harry Kane (sóknarmaður Tottenham)

Lykilmaðurinn: Harry Kane
Markahæsti og stoðsendingarhæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta er hinn fullkomni sóknarmaður og hann er líka fyrirliði liðsins.

Fylgist með: Jude Bellingham
Hann er nýfermdur. Hann er bara 17 ára gamall og hann er á leið á sitt fyrsta stórmót. Gríðarlega efnilegur miðjumaður sem spilar með Borussia Dortmund í Þýskalandi. Litið vel út í æfingaleikjum fyrir mótið.



Króatía:
Liðið sem sló Englendinga út í undanúrslitum HM fyrir þremur árum síðan. Þeir fóru í úrslitaleikinn en töpuðu þar sannfærandi gegn Frakklandi. Það er ekki allt í blóma eins og fyrir þremur árum og var liðið í vandræðum með vinna sinn riðil. Slóvakía lenti í þriðja sæti í riðlinum og var aðeins fjórum stigum á eftir Króötum.

Lykilmenn frá HM 2018 eru komnir vel á aldur og eru til dæmis Mario Mandzukic og Ivan Rakitic hættir með landsliðinu. Liðið hefur ekki virkað sannfærandi í aðdragandanum fyrir mótið. Þegar komið er inn í mótið getur hins vegar allt gerst. Lykilmenn í hópnum eru frábærir í fótbolta og geta vel hópað sér saman og búið til sterka liðsheild.

Hryggjarsúlan:
Dominik Livaković (markvörður Dinamo Zagreb)
Domagoj Vida (varnarmaður (Beşiktaş)
Luka Modric (miðjumaður Real Madrid)
Ante Rebić (sóknarmaður AC Milan)

Lykilmaðurinn: Luka Modric
Var stórkostlegur á HM fyrir þremur árum og var valinn besti leikmaður í heimi það ár. Það hefur aðeins hægst á honum síðan þá en mikið er hann góður í fótbolta, maður lifandi.

Fylgist með: Duje Ćaleta-Car
Miðvörður sem kemur til með að spila við hlið Domagoj Vida í hjarta varnarinnar. Dejan Lovren kemst mögulega ekki í liðið. Spilar með Marseille í Frakklandi en var næstum því farinn til Liverpool í janúar síðastliðnum.



Skotland:
Freyr Alexandersson hefur ekki trú á Skotlandi en þeir eru skemmtilegir. Skotland hefur verið í lægð undanfarin ár og ekki mikið til að hrópa húrra fyrir. Þeir eru mættir á sitt þriðja Evrópumót - eftir að hafa farið í gegnum umspilið - og stefna á að komast lengra en í tvö síðustu skiptin þar sem þeir féllu í bæði skiptin út í undanúrslitum.

Skotar fóru erfiðu leiðina í því að komast inn á mótið og það er hægt að bóka eitt; þeir munu berjast fyrir hvorn annan og sérstaklega þegar þeir mæta nágrönnum sínum í Englandi.

Hryggjarsúlan:
David Marshall (markvörður Derby)
Andrew Robertson (bakvörður Liverpool)
Scott McTominay (miðjumaður Manchester United)
Ché Adams (sóknarmaður Southampton)

Lykilmaðurinn: Andy Robertson
Þetta er enginn smá karakter og þetta er sigurvegari. Þegar hann var keyptur frá Hull til Liverpool þá var ekki búist við miklu. Hann kom hins vegar sá, og sigraði. Hann hefur verið lykilmaður í sterku liði Liverpool undanfarin ár og hann er fyrirliði Skotlands. Hann mun spila sem vængbakvörður í fimm manna varnarkerfi Skotlands og mun hann hlaupa upp og niður vinstri vænginn eins og enginn sé morgundagurinn.

Fylgist með: Kieran Tierney
Þegar þú lítur á skoska leikmannahópinn þá eru ekki margar stjörnur þarna. Það er mjög athyglisvert að tveir þeirra bestu leikmenn eru vinstri bakverðir. Kieran Tierney var einn af ljósu punktunum í liði Arsenal í vetur. Robertson er vinstri vængbakvörðurinn í liði Skotlands og verður Tierney vinstra megin í þriggja manna hafsentalínu. Hann mun leysa það prýðilega.



Tékkland:
Síðasta liðið í riðlinum er Tékkland. Ef þeir ná upp sínum leik, þá verður erfitt að vinna Tékkana sem leggja mikið á sig, pressa ágætlega og spila fína vörn. Þeir hreyfa boltann hratt og eru sterkir í föstum leikatriðum.

Tékkland lenti hins vegar í vandræðum í riðlinum sínum í undankeppninni þar sem þeir voru með Englandi í riðli. Þeir eru ekki mjög spennandi fram á við og eru í vandræðum með að skora mörk. Það verður bara að segja eins og er, Tékkland er ekki mjög spennandi lið en þeir eru seigir og gætu skriðið upp úr þessum riðli.

Hryggjarsúlan:
Tomáš Vaclík (markvörður Sevilla)
Vladimír Coufal (bakvörður West Ham)
Tomáš Souček (miðjumaður West Ham)
Patrik Schick (sóknarmaður Bayer Leverkusen)

Lykilmaðurinn: Tomáš Souček
Miðjumaðurinn síkáti mun sitja fyrir framan varnarlínu Tékka og verja hana. Var frábær í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hjálpaði West Ham að komast í Evrópudeildina. Hann er mikil ógn í föstum leikatriðum líka.

Fylgist með: Adam Hložek
Yngsti leikmaðurinn í hópnum, hann er bara 18 ára gamall. Sparta Prag neitaði tilboðum frá Arsenal og Bayern München árið 2017 en hann hefur nýlega verið orðaður við West Ham. Þrátt fyrir ungan aldur hefur kappinn leikið 85 leiki fyrir aðallið Spörtu og þykir hann gríðarlegt efni. Sóknarmaður sem gæti sprungið út á EM í sumar.

Dómur Fótbolta.net
England vinnur riðilinn sannfærandi. Baráttan verður hörð um annað sætið en Króatía vinnur hans. Skotland nær svo að merja þriðja sætið og gætu skriðið óvænt áfram í 16-liða úrslitin. Þetta verður ekki gott mót fyrir Tékkland, því miður.


Athugasemdir
banner
banner