„Skiptar tilfinningar. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu mínu. Mér fannst gríðarlega sterk liðsheild í dag. Við vorum ofboðslega sterkir varnarlega. Mér fannst Viktor, ein sterkasta nían í deildinni, ekki sjást. Þegar við löguðum spilamennskuna okkar í seinni hálfleik opnuðum við þá oft. Við fengum séns á að klára leikinn og fá þrjú stig. Mér fannst við eiga það skilið og maður er svekktur að hafa ekki gert það. Við átttum líka að fá pjúra víti í leiknum ég held að það sé alveg klárt.“ sagði Davíð Smári, þjálfari Vestra eftir 0-0 jafntefli við ÍA á Ísafirði.
Lestu um leikinn: Vestri 0 - 0 ÍA
Vestramenn vildu fá vítaspyrnu í leiknum en hvað hafði Davíð að segja með það atvik?
„Ég er búinn að sjá atvikið aftur og mér fannst við eiga að fá víti, það er snerting. Það var mikill hraði og erfitt fyrir dómarann að falla ekki í gildruna en það er snerting. Þegar menn eru á miklum hraða þarf ekki mikið svo það hafi áhrif.“
Davíð Smári var ekkert smá sáttur með liðið sitt í dag.
„Gunnar Jónas var stórkostlegur í leiknum í dag. Heilt yfir var Vestraliðið stórkostlegt í dag. Fatai var stórkostlegur, varnarleikurinn frábær, Fall frábær, Guðmundur Arnar frábær og Tufa gríðarlega duglegur. Ég gæti talið endalaust, liðið var heilt yfir frábært í dag. Þetta hefur ekki alveg fallið með okkur. Mikil meiðsli og lengi að bíða eftir heimavellinum.“ sagði Davíð og bar saman muninn á Vestra og ÍA seinustu mánuði.
„Hérna eru tvö lið að mætast þar sem annað liðið er með allan bæinn með sér í byrjun móts og heilu sjónvarpsþáttaraðirnar um hvað allt er frábært. Svo erum við hérna að berjast og seinir að fá okkar heimavöll. Ég var ótrúlega ánægður með stuðninginn í stúkunni og við þurfum á þessum stuðningi að halda. Ég er ofboðslega sáttur með margt í dag en gríðarlega vonsvikinn með úrslitin.“
Tarik Ibrahimagic fór frá Vestra til Víkings Reykjavík í dag og Andri Rúnar verður frá meiddur í sex vikur, eru Vestramenn að skoða í kringum sig?
„Við erum bara að skoða markaðinn það er klárt mál. Okkur vantar leikmenn. Við erum með góðan en þunnan hóp. Þ.e.a.s. við erum með marga leikmenn í sömu stöðum og við þurfum aðeins að bæta okkur á vissum sviðum það er klárt mál.“
Viðtalið við Davíð má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.