Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   mán 07. september 2020 11:00
Elvar Geir Magnússon
Hjörtur Hermanns: Ærið verkefni fyrir höndum og svakalega mikið í húfi
Icelandair
Hjörtur átti góðan leik gegn Englendingum.
Hjörtur átti góðan leik gegn Englendingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá landsliðsæfingu í síðustu viku.
Frá landsliðsæfingu í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur veit ekki hvort hann verði áfram hjá Bröndby á komandi tímabili.
Hjörtur veit ekki hvort hann verði áfram hjá Bröndby á komandi tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson átti frábæran leik gegn Englandi á laugardaginn og er nú mættur með íslenska landsliðinu til Belgíu þar sem leikið verður gegn heimamönnum í Þjóðadeildinni annað kvöld.

Hjörtur, sem lék í hægri bakverðinum, ræddi við Fótbolta.net um leikinn síðasta laugardag, verkefnið framundan og stöðu hans í Danmörku þar sem hann leikur fyrir Bröndby.

Nú tveimur dögum frá leiknum gegn Englandi og þegar menn eru búnir að melta þetta, hvernig er tilfinningin?
Þetta er mikið svekkelsi og ég held að maður hafi aldrei upplifað svona miklar sveiflur í lok leiks. Þetta var tilfinningarússíbani. Þegar við erum komnir lengra frá leiknum held ég að við getum skilið við hann mjög sáttir. Þetta var góð frammistaða og við verðskulduðum meira úr leiknum.

England er með hættulega menn á vængjunum, ertu ekki ánægður með þína frammistöðu og hvernig þið náuð að halda þessum leikmönnum niðri?
Mjög svo. Við náðum að vinna þetta vel saman sem lið og tækluðum þetta saman. Það voru góðar færslur, gott 'bakköpp' og góður talandi í liðinu. Þetta eru engir aukvisar, þetta eru 100 milljóna punda menn á báðum köntum, og heilt yfir þá skapaði England sé ekki færi í leiknum.

Þið hélduð manni eins og Jadon Sancho, einum umtalaðasta fótboltamanni heims í dag, algjörlega í skefjum.
Það er okkar persónulega upplifun af leiknum að það er aldrei sem Englendingar ná að opna okkur. Þeir eiga einhver föst leikatriði, það er eitthvað sem við kunnum vel á. Það er ekkert sem þeir gera úr opnum leik.

Hvar meturðu þína frammistöðu persónulega, er þetta þinn besti landsleikur?
Ætli það ekki. Þegar litið er á stærð verkefnis og aðstæðurnar sem maður er í, á móti þessum andstæðingum. Þetta var klárlega einn af mínum betri.

Það þarf ekki að spyrja að því að þú stefnir á að vera í liðinu og spila í þessu umspili fyrir Evrópumótið (gegn Rúmeníu í október).
Já algjörlega, eins og allir í þessum hóp. Það gefur augaleið að sterkasta liðið verður sett á völlinn þar og maður er bara klár ef kallið kemur. Það er ærið verkefni fyrir höndum og svakalega mikið í húfi.

Þessi leikur á morgun á móti Belgum, annað feykilega öflugt lið með geggjaða leikmenn innanborðs. Það þarf að ná upp því sama í þeim leik.
Það gefur augaleið að þegar þú ert í A-deild Þjóðadeildarinnar þá mætir þú stórum þjóðum í erfiðum leikjum. Við erum bara gíraðir í það.

Hvernig fer um ykkur í Belgíu?
Mjög vel. Þetta eru flottar aðstæður, þær sömu og við vorum í síðast hérna í Þjóðadeildinni. Við komum hingað í gær og allur undirbúningur er í toppstandi. Nú er bara að klára síðustu æfingu fyrir leik og svo erum við allir klárir í verkefnið á morgun.

Hvað þurfum við að gera til að sigrast á þessu belgíska liði?
Við þurfum bara að vinna þetta saman. Standa þétt og 'breika' á þá þegar við eigum möguleikann. Eins og íslenska landsliðinu er von og vísa þurfum við svo að nýta öll föstu leikatriðin sem við munum fá. Ég er alveg viss um að við getum gefið þeim góðan leik.

Aðeins um þig persónulega, hvernig er staðan úti? Þú hefur verið orðaður frá Bröndby. Hvernig er staðan nákvæmlega?
Staðan er eins og hjá mörgum akkúrat núna. Það er opinn félagaskiptagluggi og hann er seinna á ferðinni en venjulega. Tímabilin eru að byrja og það er alveg hægt að segja að einhverjar þreifingar séu í gangi. En ég er samningsbundinn Bröndby og einbeittur á það verkefni. Svo sjáum við hvað setur.

Eru meiri líkur en minni á að þú verðir í Bröndby á komandi tímabili?
Ég vil ekki tjá mig um það. Það er opinn gluggi fram í október og það getur allt gerst, þetta er fótbolti. Eins og ég segi þá er ég samningsbundinn félagi og meðan það er þannig þá mun ég gefa allt þar.
Athugasemdir
banner
banner
banner