mið 08. febrúar 2023 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Besti framherji Breiðabliks í dag er Stefán Ingi Sigurðarson"
Raðaði inn mörkum með HK í fyrra.
Raðaði inn mörkum með HK í fyrra.
Mynd: Twitter/valgeir29
Kom við sögu í fjórum deildarleikjum með Breiðabliki tímabilið 2020.
Kom við sögu í fjórum deildarleikjum með Breiðabliki tímabilið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rætt var um Stefán Inga Sigurðarson, leikmann Breiðabliks, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag. Hann hefur undanfarin tímabil verið lánaður frá Breiðabliki á meðan hann var að klára Boston College í Bandaríkjunum. Vegna námsins gat hann ekki spilað allt tímabilið á Íslandi.

Hann hefur leikið með Grindavík, ÍBV og HK undanfarin tímabil. Á síðasta tímabili skoraði hann tíu mörk í þrettán leikjum með HK í Lengjudeildinni og sex mörk í tveimur bikarleikjum. Hann er framherji sem verður 22 ára á þessu ári.

Ótímabæra spáin var á dagskránni í þættinum og þegar komið var að HK í 11. sætinu barst Stefán til tals. Umræða hefur verið um hvort að Stefán fái tækifæri hjá Breiðabliki í sumar eða hvort hann verði lánaður í annað lið í deildinni.

„HK-ingar eru ennþá að vonast til þess að Stefán Ingi komi. Hann byrjaði á bekknum í úrslitaleik Þungavigtarbikarsins," sagði Elvar Geir.

„Sem var svolítið áhugavert því hann reimar ekki á sig annan skóinn með Beiðabliki þessa dagana án þess að skora. Hvað þarf að gerast til að Óskar Hrafn rífi í gikkinn og ákveði að byrja Stefáni (í Bestu deildinni)? Hann er reyndar búinn að fá sér ansi marga kalla fram á við. Ég veit að það er búið fjárfesta vel þarna, en besti framherji Breiðabliks í dag er Stefán Ingi Sigurðarson," sagði Tómas Þór.

„Þetta er þungt högg fyrir Klæmint," sagði Elvar á léttu nótunum. „Klæmint hefur ekki sýnt okkur neitt í Bestu deildinni. Hann er mikill markaskorari í Betri deildinni (færeysku) en hann á eftir að fara í Bestu deildina. Auðvitað hefur Stefán Ingi ekki sýnt okkur mikið í efstu deild en þetta er bara strákur sem hefur skorað mörk. Hann hefur bara alltaf skorað mörk," sagði Tómas.

Skömmu eftir þessi ummæli Tómasar skoraði Stefán tvö mörk gegn Selfossi í Lengjubikarnum eftir að hafa verið á bekknum fram að 62. mínútu.

Ómar Ingi um Stefán:
„Það var eitthvað í haust náttúrulega," sagði Ómar um það hvort HK hafi verið í viðræðum við Breiðablik um að fá Stefán aftur til félagsins.

„Mér sýnist á hans fyrstu vikum niðri í Smára að hann sé að fá að spila. Hann er að byrja leikina sem þeir hafa verið að spila undanfarið. Mér sýnist samtalið á milli Blika og Stefáns vera á þá leið að hann verði í einhverju hlutverki hjá þeim. Það verður að koma í ljós hvernig það þróast."

Óskar Hrafn um Stefán:
„Stebbi hefur komið mjög sterkur inn, staðið sig vel, lært vel og er með gott hugarfar. Hann hefur lagt sig mikið fram og er auðvitað efnilegur leikmaður sem við bindum vonir við."

Það sem Stefán sagði í október:
„Ég klára skólann núna í desember og mæti í kjölfarið heim til að einbeita mér að undirbúningstímabilinu á Íslandi."

Komnir
Alex Freyr Elísson frá Fram
Arnór Sveinn Aðalsteinsson frá KR
Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (var á láni hjá Val)
Ágúst Orri Þorsteinsson frá Malmö
Eyþór Aron Wöhler frá ÍA
Klæmint Olsen á láni frá NSÍ Runavík
Patrik Johannesen frá Keflavík
Stefán Ingi Sigurðarson frá HK (var á láni hjá HK)

Farnir
Dagur Dan Þórhallsson til Orlando
Elfar Freyr Helgason í Val
Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg
Mikkel Qvist
Sölvi Snær Guðbjargarson í frí
Omar Sowe til Leiknis (var á láni frá NY Red Bulls)
Adam Örn Arnarson í Fram (var á láni hjá Leikni)
Benedikt Warén í Vestra (var á láni hjá ÍA)
Útvarpsþátturinn - Ótímabæra spáin og Óli Kristjáns
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner