Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 08. júní 2021 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Nýliðavalið fjarlægur draumur - Fótboltinn heillar meira en menningin
Stefán í leik með BC
Stefán í leik með BC
Mynd: BC
Númer 23 hefur verið lukkunúmer í fjölskyldu Stefáns síðustu kynslóðir.
Númer 23 hefur verið lukkunúmer í fjölskyldu Stefáns síðustu kynslóðir.
Mynd: BC
Marki fagnað
Marki fagnað
Mynd: BC
Stefán framlengdi við Breiðablik í vetur.
Stefán framlengdi við Breiðablik í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Ingi Sigurðarson er samningsbundinn Breiðabliki á Íslandi og er á láni hjá ÍBV. Undanfarna vetur hefur sóknarmaðurinn verið í háskóla í Boston og leikið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með BC (Boston College).

Brynjar Benediktsson er einn af stofnendum Soccer & Education USA sem aðstoðar leikmenn að komast að á skólastyrk í Bandaríkjunum. Brynjar sagði í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í upphafi árs að Stefán væri með það sem markmið að fara í nýliðavalið í bandarísku MLS-deildinni.

Hann yrði annar Íslendingurinn til að fara í valið. Jökull Elísabetarson var valinn af Chicago Fire árið 2009 en samdi ekki við félagið.

Fótbolti.net hafði samband við Stefán í dag og spurði hann út í háskólaboltann og stöðuna varðandi nýliðavalið. Fyrr í dag var birtur fyrri hluti viðtalsins við Stefán þar sem hann var spurður út í skiptin til ÍBV og fleira til.

Fyrri hluti:
Kominn í gang hjá ÍBV - Erfið ákvörðun „en handviss um að ég hafi valið rétt"

„Ég næ því miður ekki að klára tímabilið með ÍBV því ég á að mæta til Boston síðasta lagi 10 ágúst. Ég mun reyna að lengja veru mína á Íslandi en hvort það heppnist er undir þjálfaranum í háskólanum," sagði Stefán m.a. í fyrri hlutanum.

Bæði marka- og stoðsendinghæstur
Hvernig eru hlutirnir að ganga úti í Bandaríkjunum?

„Hlutirnir ganga mjög vel úti og ég er bara ánægður í Boston. Fyrsta keppnistímabilið gekk mjög vel, liðið fór í úrslitakeppnina og mér gekk mjög vel inn á vellinum. Mér tókst að vera bæði markahæstur og stoðsendingahæstur í liðinu og var hæstánægður með það," sagði Stefán.

„Ég var svo sendur heim eins og allir aðrir í mars 2020 þegar faraldurinn fór úr böndunum. Ég æfði með Blikum í rúma 11 mánuði með stuttu stoppi í Grindavík þar sem þjálfarinn minn úti leyfði mér að taka önnina í fjarnámi. Ég fór svo aftur út í lok janúar (á þessu ári) þar sem við spiluðum stutt tímabil til að bæta upp fyrir leikjalausa önn fyrir áramót."

„Ég er búinn með tvö ár og er að taka tvö fög í sumar og mun einnig taka tvö fög næsta sumar til að útskrifast á þremur og hálfu ári í stað fjögurra. Þá verð ég búinn um jólin 2022 og get í kjölfarið þá loksins tekið heilt tímabil hérna heima."

„Ég hef möguleika á að taka mastersnám á skólastyrk en hef ekki ákveðið hvort ég geri það strax eftir útskrift."


Frekar fjarlægur möguleiki - Fótboltinn heillar
Er stefnan sett á nýliðavalið eftir háskólann? Er það raunhæft?

„Það er alveg eitthvað til í þessu hjá Brynjari. Þetta er frekar fjarlægur möguleiki en stefnan samt klárlega sett á þetta. Eftir fyrsta tímabilið kom upp umræða um að setja mig í nýliðavalið. Þetta var sem sagt þannig að það er umboðsskrifstofa sem sér um nýliðavalið og hafði hún samband við mig og ræddi um möguleikann á að setja mig í nýliðavalið eftir annað árið í Boston. En svo kom heimsfaraldurinn þannig það varð ekkert úr því. Næsta ár á að vera eðlilegt þannig við sjáum bara hvað gerist þá."

Minnkar það líkurnar á að fara í nýliðavalið eftir þriðja eða fjórða ár?

„Nei, það minnkar líkurnar ekkert. Liðin vilja samt auðvitað fá menn eins unga og hægt er, svipað og sést allsstaðar í heiminum. Þau eru bara í sambandi við umboðsskrifstofuna hvert ár til að láta vita hvaða leikmenn þau vilja fá í nýliðvalið."

Heillar að búa í Bandaríkjunum og spila í MLS?

„Mér finnst þetta spennandi tækifæri til að fara út í atvinnumennskuna þannig að ég stefni á að eiga betra tímabil en ég átti á fyrsta árinu og sjá hvað gerist. Bandaríkin sem land og menningin þar heillar mig ekkert brjálæðislega, en fótboltinn gerir það hinsvegar," sagði Stefán.

Hér að neðan má sjá frábært mark Stefáns sem rataði inn á top 10 lista hjá Sport Center.

Sjá einnig:
Kominn í gang hjá ÍBV - Erfið ákvörðun „en handviss um að ég hafi valið rétt"
Hin hliðin - Stefán Ingi Sigurðarson


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner