banner
   fös 08. október 2021 09:40
Elvar Geir Magnússon
Hvernig fer í kvöld? - Álitsgjafar spá í landsleikinn
Icelandair
Jón Gnarr spáir Armenum sigri.
Jón Gnarr spáir Armenum sigri.
Mynd: Twitter
Gústi spáir íslenskum sigri.
Gústi spáir íslenskum sigri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Véfréttin sjálf.
Véfréttin sjálf.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hjammi býður upp á skýringarmynd með sinni spá.
Hjammi býður upp á skýringarmynd með sinni spá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel er bjartsýnn.
Daníel er bjartsýnn.
Mynd: ÍBV
Albert Brynjar Ingason.
Albert Brynjar Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland og Amenía mætast í kvöld klukkan 18:45 í undankeppni HM. Fótbolti.net fékk vaska sveit spámanna til að giska á úrslit leiksins á Laugardalsvelli.

Ef spár allra álitsgjafa eru lagðar saman erum við með útkomuna 19-9. Vonandi vinnst heimasigur í kvöld!

Jón Gnarr, Tvíhöfði
Ísland 1-2 Armenía: Armenar hafa verið að styrkjast þrátt fyrir slæma byrjun. Eru að spila kröftugan sóknarbolta. Okkar veiki hlekkur er vörnin. Á þetta hefur þjálfari Armena lagt áherslu.

Kristján Jónsson, Bolvíska stálið á Morgunblaðinu
Ísland 1-1 Armenía: Ég held að þessi leikur geti orðið nokkuð erfiður vegna þess að svo mikið er í húfi hjá Armenum. Þeir eiga óvænt mikla möguleika að komast á HM. Þeir eru því vel gíraðir. Á móti kemur þekkja þeir slíka stöðu ekki mjög vel og spennustigið hjá þeim gæti orðið ansi hátt. Íslenska liðið á eftir að spila sig betur saman og ég er því ekki viss um að það nái að leggja Armeníu að velli sem vann fyrri leik liðanna þótt þá væru Aron Einar, Kolbeinn, Jóhann Berg, Hannes og Kári með.

Ágúst Gylfason, fótboltaþjálfari
Ísland 2-1 Armenía: Hef trú á að okkar menn vinni góðan sigur á varnarsinnuðum Armenum. Fáum vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Albert Guðmunds fiskar og skorar sjálfur úr af öryggi. Birkir Bjarna eykur forystuna með marki af fjær eftir flotta fyrirgjöf frá Alfons sem fær að starta leikinn í kvöld. Armenar ná inn marki seint í leiknum og fá vítaspyrnu í uppbótatíma sem Mkhitaryan tekur en Patrik markvörður Ísland ver meistaralega og tryggir okkur virkilega dýrmæt þrjú stig.

Ingólfur Sigurðsson, leikmaður KV og meðlimur Innkastsins
Ísland 1-0 Armenía: Íslenska liðið nýtur þess að koma pressulaust inn í leikinn og það verður Albert Guðmundsson sem skorar sigurmarkið.

Kristján Óli Sigurðsson, Höfðinginn í Þungavigtinni
Ísland 2-0 Armenía. Sigur Íslands fyrir framan alltof fáa áhorfendur. Armenar gerðu jafntefli við Liechtenstein í síðasta leik og ég geri bara kröfur um þrjú stig í þessum leik. Elías mætir fullur sjálfstrausts í markið og heldur hreinu. Jón Dagur og Albert skora mörkin í sitt hvorum hálfleiknum.

Gunnar Sigurðarson, Gunnar á völlum
Ísland 3-0 Armenía: Rétt eins og nánasta fjölskyldan mín veit og sumt fólk sem ég ræði stundum við þá er ég véfrétt þegar kemur að því að spá fyrir úrslit kappleikja. Það er því dásamlegt að geta veitt getraunasprækum tækifæri á að troða inn á reikninga, með nokkuð lítilli fyrirhöfn.

Það er vel þekkt að Armeninn kann sitt í fótbolta og skal enginn gleyma þegar þeir niðurlægðu Dani á Parken 0-4 í sömu keppni árið 2013, þeirra besta undankeppni frá upphafi vil ég meina. Gjörsamlega sturlaðir. Nú kom Armeninn vel undan Covid og gætu verið að gera betra mót en 2013 en í síðustu leikjum hafa þeir verið að Armena algjörlega yfir sig og verið ömurlegir. Það verður því gaman að sjá hvernig lárétta, skítkalda suðaustan rigningin fer í huggulegu andlitin á þeim. Úr verður gríðarlega góður 3-0 sigur Íslands og okkur gæti ekki verið meira drullusama hverjir eru að skora.

Daníel Rúnarsson, Arena
Ísland 0-3 Armenía: Því miður. Það fór ekki vel gegn Armenum í mars og það var fyrir allan þennan harmleik sem gengið hefur yfir knattspyrnusambandið og landsliðið. Teflum fram mun óreyndara liði núna, engin stemming á nánast tómum ljótasta þjóðarleikvangi Evrópu. Þetta gæti hreinlega orðið ljótt.

Hjálmar Örn Jóhannsson, skemmtikraftur:
Ísland 3-0 Armenía: Arnar hefur fengið mikinn hita vegna ummæla um að landsliði fari ekki í alla leiki til að vinna, en hér er hann að nota svokallaða Reverse psychology. Sjá mynd sem skýringu!



Rafn Markús Vilbergsson, sérfræðingur og þjálfari
Ísland 1-0 Armenía: Umræðan, umhverfið og væntingar til landsliðsins eru því miður ekki á sama stað og við þekkjum síðustu ár. Liðið þarf á sigri að halda í kvöld, bæði til þess að auka trú á landsliðið og fyrir ungan leikmannahóp. Við sjáum vonandi í kvöld skipulagðara og kröftugra landslið þar sem liðsheildin verður okkar styrkleiki. Eftir frábæra byrjun hjá Armeníu í riðlinum hafa þeir verið að misstíga sig að undanförnu. Með sterkum varnarleik og hröðum og vel útfærðum sóknarleik þá vinnum við 1-0 með marki frá Alberti Guðmundssyni.

Birkir Karl Sigurðsson, Chess After Dark
Ísland 1-0 Armenía: Mínúta 43, Elías Rafn í sínum fyrsta leik rennir boltanum á Brynjar Inga sem neglir honum fram beint á kassann á Alberti Guðmundssyni sem tekur hann niður snyrtilega, sendir Viðar Örn í gegn sem klárar þetta á nærstöng. Þetta segir kristalskúlan mér, eða eitthvað í þá áttina.

Örvar Arnarsson, fréttaritari Fótbolta.net í Vín
Ísland 2-0 Armenía: Hugmyndir Arnars og Eiðs eru búnar að síast inn og strákarnir okkar hrökkva í gang. Elías kemur inn í liðið og harðskellir í lás. Henrik greyið verður í strangri gæslu og kemst hvorki lönd né strönd. Ísak Bergmann og Albert Guðmundsson skora mörk Íslands - Ísak með snuddu af 20-25 metrum og Albert spólar sig í gegnum vörn Armena. Upphafið á uppgangi þessa liðs hefst með þessum leik. Ekkert víst að þetta klikki.

Daníel Geir Moritz, eigandi ÍBV
Ísland 2-1 Armenía: Strembinn leikur en við verðum öll að tala um Ísak Bergmann eftir þessar 90 mínútur. Hann á eftir að taka þetta yfir. Þá mun Albert skora eftir flott spil.

Albert Brynjar Ingason, leikmaður Fylkis
Ísland 1-1 Armenía: Armenar einungis búnir að tapa einum leik í þessum riðli og hafa komið manni á óvart, hafa þó aðeins verið að koma niður á jörðina og ekki unnið leik í síðustu 5 leikjum. Skellur gegn Þjóðverjum er kannski ekki eitthvað sem kom manni á óvart en væntanlega gríðarlega vonbrigði fyrir þá að ná einungis jafntefli heima gegn Liechtenstein.

Reikna með smá stressi í upphafi leiks hjá okkar mönnum, ungur hópur og þjálfarinn hefur verið að pressuminnka leikina tvo fyrir leikmenn með sínum yfirlýsingum fyrir þessa tvo leiki, okkur vantar leikmenn í ákveðnar stöður á vellinum með reynslu sem gefa af sér þá yfirvegun sem myndi gefa ró fyrir aðra leikmenn.

Tel að Armenar munu finna lyktina af þessu og ríða á vaðið og skora fyrsta mark leiksins, Arsenal legendið Henrich Mkhitaryan mun skora það mark, en við það droppa Armenar og reyna að halda og þá munum við fá smá sjálfstraust á boltann sem skilar sér með marki frá Fylkis fan nr1 Albert Guðmundssyni.

1-1 Lokatölur leiksins, vonandi ræðst þó leikurinn ekki á því hvor þjálfarinn krefst sigurs.




Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner