Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 09. janúar 2022 15:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Úr Hveragerði til Malmö - „Íbúðin var með einu aukaherbergi"
Milos er fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings.
Milos er fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður áhugavert að fylgjast með Milos hjá Malmö.
Það verður áhugavert að fylgjast með Milos hjá Malmö.
Mynd: Getty Images
Milos Milojevic var í síðustu viku ráðinn þjálfari Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð.

Hann tekur við liðinu af Jon Dahl Tomasson, fyrrum landsliðsmanni Dana, sem lét af störfum eftir tveggja ára starf. Malmö varð meistari bæði árin undir hans stjórn.

Milos er fyrrum þjálfari Breiðabliks og Víkings en hann stýrði síðast Hammarby í Svíþjóð. Hann var látinn fara þar sem félagið taldi að Milos hefði farið á bak við það með því að ferðast til Noregs í viðræður við Rosenborg.

Milos er fæddur í Serbíu en er einnig með íslenskt ríkisfang; hann hefur verið að gera áhugaverða hluti á þjálfaraferlinum. Hann kom fyrst hingað til lands árið 2006 til að spila með Hamri í 3. deild. Hann spilaði svo með Ægi og fór í Víking árið 2010. Sigurður Gísli Guðjónsson, Hvergerðingur, sagði frá því á Twitter hvernig Milos endaði á Íslandi.

„Árið 2006 varð Kristmar Geir Björnsson nýr þjálfari hjá Hamri. Hann bætti við nokkrum Skagfirðingum enda kóngurinn í Skagafirðinum. Ljóst var að styrkja þyrfti liðið fyrir 3. deildina – eða allavega ná í lið. Þægileg deild sem var búin fyrir þjóðhátíð. Marri þekkti Serba. Þeir höfðu spilað saman hjá Tindastól. Hann heitir Mladen Ilic. Kallaður Ladi þar sem hann skilaði ekki mikilli varnarvinnu. Ladi var til í að koma og spurði hvort okkur vantaði ekki markmann. „Auðvitað” – hjá okkur var bara sá aftasti sem fór í mark. Ekki verra að Robert Mitrovic átti flottan feril og í ljós kom að hann var geggjaður. Hafði spilað á móti Red Star sem okkur þótti ekkert merkilegt enda ekki miklir sérfræðingar þarna austantjalds. Seinna kom Ladi með tillögu að miðju/varnarmanni. Við hugleiddum málið og þar sem íbúðin var með einu auka herbergi var ákveðið að taka hann bara líka. Það var Milos Milojevic nýráðinn þjálfari Malmö – Innilega til hamingju," skrifaði Sigurður Gísli á Twitter.

Milos hefur heldur betur verið á hraðferð upp metorðastigann í þjálfun og núna er hann mættur í eitt stærsta starfið í Skandinavíu, ef ekki það stærsta.

„Þessi ævintýralegi metnaður hans og gæði í þjálfun... það eru fjögur, fimm ár síðan hann stakk Víking í bakið og hoppaði til Blika - gat ekki neitt þar - og endar núna sem þjálfari Malmö," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolta.net.

„Öll virðing fyrir þetta, en þú ert að gleyma einum þætti. Það eru sambönd. Það er málið," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Það er hárrétt. Það er kannski munurinn á honum og Heimi Hallgrímssyni. Heimir var ekki að fá Malmö. Milos er með svakalegt tengslanet... hann er mjög góður að koma sér fram og kemur vel fram," sagði Tómas.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér að neðan.


Útvarpsþátturinn - Boltafréttir og breytt Íslandsmót
Athugasemdir
banner
banner