Víkingar komu í gær til Kósovó en þar undirbúa þeir sig fyrir leik gegn FC Malisheva í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikur liðanna fer fram ytra og hefst klukkan 18:15 að íslenskum tíma annað kvöld.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, í kvöld.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, í kvöld.
Stærri hluti viðtalsins verður birtur á morgun, í þessum hluta var rætt við Sölva um stöðuna á hópnum fyrir leikinn annað kvöld. Stærsta spurningarmerkið fyrir leikinn er markmannsstaðan en Pálmi Rafn Arinbjörnsson hefur staðið vaktina í síðustu tveimur leikjum þar sem Ingvar Jónsson hefur verið meiddur.
Ingvar er klár í slaginn og má búast við því að hann spili í þessum mikilvæga leik, en Sölvi gefur ekkert upp.
„Ingvar æfði áðan, ég er ekki búinn að gefa út byrjunarliðið svo það verður að koma í ljós hver spilar á morgun, en hann er alveg klár í byrja og leið vel á æfingu í dag; búinn að æfa með okkur síðustu þrjár æfingar. Pálmi er búinn að gera hrikalega vel í þessum tveimur leikjum sem hann hefur spilað í fjarveru Ingvars. Það er sama gamla, alltaf hausverkur að velja byrjunarliðið í þessu Víkingsliði, en það er hollt, samkeppnin er mikil og Pálmi gerði vel. Það kemur í ljós hver fær traustið á morgun," segir Sölvi.
Fimm sem geta ekki spilað
„Það er ekkert vesen á þeim sem hafa verið að spila. Það eru fimm sem geta ekki spilað, það er töluvert langt í Svein Margeir (Hauksson), Aron (Elís Þrándarson) og Matta (Matthías Vilhjálmsson). Stígur (Diljan Þórðarson) er aðeins byrjaður að skokka og hreyfa sig, þetta grær allt fljótar hjá yngri strákunum, og vonandi verður hann klár sem fyrst. Svo er Óskar Borgþórsson ekki kominn með leikheimild."
Gert allt upp á tíu í sinni endurhæfingu
Pablo Punyed er að vinna sig til baka eftir krossbandsslit fyrir rétt tæpu ári síðan.
„Pablo er alltaf að koma betur og betur inn í þetta, farinn að treysta hnénu betur og betur. Ég vona að við sjáum tækifæri til að láta Pabo spila í þessu einvígi. Hann er að koma til baka eftir langt bataferli, búinn að leggja hart að sér, búinn að vera mjög duglegur. Það er vonandi að leikmenn og þau sem hafa séð hann leggja á sig hafi tekið vel eftir því hvernig á að bera sig þegar maður lendir í meiðslum, hann hefur gert allt upp á tíu."
„Vonandi styttist í að hann fái traustið.",En eins og ég segi þá er samkeppnin mikil og mikil gæði í leikmönnum, það er hægara sagt en gert að brjóta sér leið inn í liðið, en vonandi fær Pablo mínútur sem fyrst því við vitum hvað hann getur gert," segir Sölvi.
Athugasemdir