Fyrir tímabil spáði Fótbolti.net Stjörnunni þriðja sæti Bestu deildarinnar en liðið situr hinsvegar í því sjöunda. Ómögulegt hefur verið að spá í byrjunarlið Garðabæjarliðsins enda hefur Jökull Elísabetarson verið að gera margar og óvæntar breytingar milli leikja.
Í Innkastinu klóruðu menn sér í höfðinu yfir öllum þessum óútreiknanlegu breytingum á byrjunarliði Stjörnunnar, í kjölfarið á 2-1 tapinu gegn Fram í vikunni.
Í Innkastinu klóruðu menn sér í höfðinu yfir öllum þessum óútreiknanlegu breytingum á byrjunarliði Stjörnunnar, í kjölfarið á 2-1 tapinu gegn Fram í vikunni.
„Það veit enginn hvernig byrjunarliðið verður hjá Jökli eða hvað hann sé að pæla. Maður horfði á skýrsluna og fannst þetta hálfpartinn varalið en samt voru fimm dagar frá Evrópuleik, og þeir töpuðu honum og eru úr leik í Evrópu. Er hann að kasta upp á hver byrjar hverju sinni? Hver er stefnan og hvernig er liðið sem hann er að móta, veit það einhver?" segir Elvar Geir Magnússon í þættinum.
„Ég veit ekki alveg á hvaða vegferð hann er með þetta lið. Hann er með Gumma Kristjáns á miðjunni, Danna Laxdal og Sigurð Gunnar sem komst ekki í Leikni sem er í harðri fallbaráttu í Lengjudeildinni. Örvar Logi er búinn að vera í miklum vandræðum í bakverðinum, Danni Finns er allt í einu byrjaður að spila núna. Helgi Fróði og Kjartan Már búnir að fá mikið hrós en eru á bekknum," segir Valur Gunnarsson.
„Mér finnst pínu eins og Stjarnan sé að nálgast þetta eins og haustmót. - 'Núna þarft þú að sýna mér hvað þú getur'."
Fram kemur á Vísi að í síðustu sex leikjum hefur Jökull gert 29 breytingar á byrjunarliði Garðbæinga.
„Ég trúi ekki ástæðan sé eitthvað leikjaálag. Eins og ég segi voru fimm dagar frá þessum Evrópuleik. Kannski spilar eitthvað inn í að hann sé að reyna að halda öllum góðum, senda þau skilaboð til manna að þeir gætu mögulega fengið að spila hvenær sem er," segir Elvar og Valur bætir við:
„Ég var að reyna að pæla hvað væri verið að hugsa en svo skoðar maður þessi úrslit undanfarið og þau eru ekkert hræðileg. Þeir unnu Skagann úti, unnu Fylki fyrir það og gerðu jafntefli gegn KR úti. Þetta eru ekkert hræðileg úrslit fyrir þennan leik en við erum kannski svolítið að blindast af þessum Evrópuleik þar sem Þórarinn Ingi var allt í einu kominn í byrjunarliðið," segir Valur.
„Ég er spenntur að sjá hvernig þróunin verður. Hvort hann ætli að halda áfram þessu, að grýta nöfnum á blað og setja svo menn á bekkinn strax aftur," segir Elvar.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 21 | 14 | 4 | 3 | 48 - 25 | +23 | 46 |
2. Víkingur R. | 20 | 13 | 4 | 3 | 47 - 23 | +24 | 43 |
3. Valur | 21 | 10 | 5 | 6 | 49 - 32 | +17 | 35 |
4. FH | 21 | 9 | 5 | 7 | 36 - 35 | +1 | 32 |
5. ÍA | 21 | 9 | 4 | 8 | 40 - 31 | +9 | 31 |
6. Stjarnan | 21 | 9 | 4 | 8 | 39 - 35 | +4 | 31 |
7. KA | 21 | 7 | 6 | 8 | 32 - 37 | -5 | 27 |
8. Fram | 21 | 7 | 5 | 9 | 28 - 29 | -1 | 26 |
9. KR | 20 | 5 | 6 | 9 | 34 - 39 | -5 | 21 |
10. HK | 21 | 6 | 2 | 13 | 23 - 51 | -28 | 20 |
11. Vestri | 21 | 4 | 6 | 11 | 22 - 42 | -20 | 18 |
12. Fylkir | 21 | 4 | 5 | 12 | 26 - 45 | -19 | 17 |
Athugasemdir