Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, fór af velli vegna meiðsla í leik KR gegn Selfossi í Lengjubikarnum í síðasta mánuði. Aron hefur ekkert spilað eftir meiðslin en hann fór í myndatöku um helgina og eru Vesturbæingar bjartsýnir á að Aron sé ekki alvarlega meiddur.
„Hann fór í myndatöku á laugardaginn og það er verið að bíða eftir niðurstöðu; erum að reyna finna einhvern til að lesa út úr myndunum," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson. þjálfari KR, við Fótbolta.net fyrir hádegi í dag.
„Ég á von á því að hann verði klár fljótlega. Ég held að þetta hafi verið smávægileg tognun sem hann er búinn að jafna sig á núna. Það liðu næstum tvær vikur frá því að þetta gerðist þangað til hann komst í myndatöku. Eins og þetta lítur út núna þá held ég að hann sé búinn að jafna sig og geti farið að æfa fljótlega," sagði Óskar.
Aron er algjör lykilmaður í iiði KR, átti gott tímabil í fyrra og hefur verið funheitur í vetur.
Fleiri voru fjarverandi í leiknum gegn Stjörnunni í gær. Óskar segir að það sé líklegast lengst í Guðmund Andra Tryggvason af þeim sem glíma við meiðsli. „Hann fékk sprautu í hnéð á dögunum, hann er byrjaður að skokka aðeins og það er bara spurningamerki með hann, við látum bara hverjum degi nægja sína þjáningu í því."
Matthias Præst glímir við smávægileg hnémeiðsli, óvissa er með meiðsli Luke Rae sem þarf að fara í myndatöku, Alexander Helgi Sigurðarson er ekki byrjaður að æfa eftir meiðsli og Aron Þórður Albertsson byrjar að æfa á miðvikudag eftir að hafa jafnað sig á ristarbroti.
Næsti leikur KR verður gegn Fylki í undanúrslitum Lengjubikarsins. Sá leikur fer fram á föstudag.
Athugasemdir