Miðjumaður Everton orðaður við Man Utd - Ramos til Liverpool?
   sun 28. desember 2025 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes vonsvikinn með frammistöðuna
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
David Moyes þjálfari Everton var ekki sérlega hrifinn af spilamennsku sinna manna eftir markalaust jafntefli við nýliða Burnley í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Það var ekki mikið að frétta í leiknum en heimamenn í fallbaráttuliði Burnley fengu hættulegustu færin, þó að ekki ein einasta marktilraun frá þeim hafi ratað á markrammann.

„Við höfum verið að spila nokkuð vel upp á síðkastið en þetta var ekki ein af okkar betri frammistöðum. Við verðum að spila betur en þetta ef við viljum vinna fótboltaleiki. Burnley er kannski með aðrar skoðanir á þessu en frá okkar sjónarhorni var þetta léleg frammistaða," sagði Moyes.

„Ég er vonsvikinn með þessa frammistöðu, við getum spilað mikið betur. Við förum í það minnsta heim með stig og hreint lak, það er hægt að taka eitthvað jákvætt úr þessu. Ég er alls ekki ánægður því ég kom ekki hingað til að ná í eitt stig, ég kom hingað til að sækja öll þrjú stigin. Við komumst bara aldrei í gang, við vorum fastir í fyrsta gír. Það er mikilvægt að tapa ekki leikjum þegar maður er ekki að spila upp á sitt besta.

„Það er aldrei auðvelt að heimsækja Burnley á Turf Moor og þeir mættu í þennan leik með sjálfstraust eftir að hafa náð í góð úrslit gegn Bournemouth í síðustu umferð."


Everton vildi fá tvær vítaspyrnur í leiknum en Moyes neitaði að kenna dómurunum um.

„Ég sá eitt alveg í endan þegar (Jake) O'Brien skallar boltann í höndina á varnarmanninum sem var uppi í loftinu. Við fengum vítaspyrnu á okkur í síðustu viku en við fengum ekki dæmda vítaspyrnu núna. Þetta er eina atvikið sem ég tók eftir en ég hef heyrt af öðru atviki sem ég á eftir að skoða."

Everton var án sex leikmanna í dag, þar á meðal Jack Grealish, Kiernan Dewsbury-Hall og Iliman Ndiaye.

„Þetta er partur af starfinu, það er undir okkur komið að ná í úrslit sama hvað bjátar á. Við eigum að geta unnið fótboltaleiki með þeim leikmönnum sem eru til staðar. Við unnum ekki í dag en vonandi mun þetta stig koma sér vel í lok tímabils."
Athugasemdir
banner