Enzo Maresca þjálfari Chelsea var svekktur eftir tap á heimavelli gegn Aston Villa í toppbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Það var bara eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik þar sem Chelsea fékk mikið af góðum marktækifærum en tókst einungis að skora eitt mark, sem kom eftir hornspyrnu.
„Við stjórnuðum leiknum fyrsta klukkutímann, allt þar til við fengum mark á okkur. Við vorum mjög góðir en eftir að þeir jöfnuðu þá breyttust hlutirnir. Vandamálið er að við áttum að vera búnir að skora þrjú eða fjögur mörk á þessum tímapunkti þegar þeir jafna metin," sagði Maresca sem var ekki á hliðarlínunni útaf leikbanni. Hann horfði úr stúkunni.
„Það hafði engin áhrif, ég náði að eiga góð samskipti við strákana þrátt fyrir bannið. Það var ekkert mál. Við erum aðallega vonsviknir útaf því að það eru tíu stig á milli okkar á stöðutöflunni. Sá stigamunur sást ekki á spilamennsku liðanna í dag."
Unai Emery þjálfari Aston Villa gerði þrefalda skiptingu í seinni hálfleiknum þar sem Ollie Watkins kom inn á völlinn ásamt Jadon Sancho og Amadou Onana.
„Þessar skiptingar breyttu leiknum en mistökin okkar voru að nýta ekki færin þegar þau gáfust. Þetta hefði orðið allt öðruvísi leikur ef við hefðum skorað meira í fyrri hálfleiknum.
„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik bæði með og án boltans. Við vorum mjög góðir og sköpuðum góð færi. Við héldum því áfram í upphafi síðari hálfleiks en þeir náðu svo tökum á leiknum eftir skiptingarnar og refsuðu okkur."
Maresca var spurður út í umdeilt atvik sem átti sér stað í fyrri hálfleik í stöðunni 1-0, þegar boltinn fer augljóslega af hendi Ian Maatsen, bakverði Villa, innan vítateigs og útfyrir endamörk í hornspyrnu. Pedro Neto leikmaður Chelsea hefði mögulega fengið boltann í algjöru dauðafæri ef Maatsen hefði ekki snert boltann með höndinni.
Sjáðu atvikið
„Þetta lítur út fyrir að vera vítaspyrna. Boltinn fer augljóslega í höndina á honum og (Pedro) Neto stendur þarna fyrir aftan tilbúinn til að pota boltanum í netið, en af einhverjum ástæðum ákvað dómarateymið að blanda sér ekki í málið. Á þessum tímapunkti leiksins var staðan 1-0, þetta er mjög svekkjandi ákvörðun."
Maresca skipti Cole Palmer af velli í síðari hálfleik og var leikmaðurinn augljóslega ósáttur með ákvörðunina. Þá talaði hann einnig um reynsluleysi leikmanna sinna.
„Hann er ekki meiddur og ég er mjög ánægður með hans framlag. Ég tók hann af velli útaf því að hann virtist vera smá þreyttur.
„Ef við skoðum fyrsta klukkutíma leiksins þá vorum við ekki að vinna útaf reynslunni heldur útaf gæðum. Eftir fyrsta klukkutímann lentum við í vandræðum, skiptingarnar þeirra breyttu leiknum."
Athugasemdir

