Raya er ekki bara frábær með fótunum. Hann er stór hluti af ástæðunni fyrir því að Arsenal fær svona lítið af mörkum á sig undir stjórn Mikel Arteta.
Spænski markvörðurinn David Raya er einn af bestu markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar og sýndi hann gæðin sín aftur í dag þegar Arsenal fékk Brighton í heimsókn.
Arsenal tókst aðeins að fara inn í leikhlé með eins marks forystu þrátt fyrir mikla yfirburði en gestirnir frá Brighton lifnuðu við í síðari hálfleik. Arsenal komst í tveggja marka forystu en gestirnir minnkuðu muninn og gerðu sig líklega til að skora jöfnunarmark.
Það var á 76. mínútu sem Brighton komst næst því að jafna, þegar Yankuba Minteh átti frábæra marktilraun eftir laglega hælsendingu frá Georginio Rutter.
Boltinn virtist vera að stefna upp í fjærhornið en Raya skutlaði sér og náði að blaka honum í hornspyrnu til að halda eins marks forystu. Þessi varsla endaði á að bjarga tveimur stigum fyrir Arsenal þar sem lokatölur urðu 2-1.
Arsenal er í harðri toppbaráttu við Manchester City og Aston Villa eftir hálft tímabil. Brighton er í þéttum pakka um miðja deild.
What a RIDICULOUS save from Raya…pic.twitter.com/6qVdbBMjl9
— The 44 ?? (@The_Forty_Four) December 27, 2025
Athugasemdir



