Chelsea 1 - 2 Aston Villa
1-0 Joao Pedro ('37 )
1-1 Ollie Watkins ('63 )
1-2 Ollie Watkins ('84 )
1-0 Joao Pedro ('37 )
1-1 Ollie Watkins ('63 )
1-2 Ollie Watkins ('84 )
Chelsea og Aston Villa áttust við í stórleik í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og voru heimamenn talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
Þeir bláklæddu fengu frábær færi til að taka forystuna en tókst ekki að koma boltanum í netið fyrr en þeir skoruðu heppnismark eftir hornspyrnu á 37. mínútu. Emiliano Martínez markvörður Villa varði boltann í Joao Pedro og þaðan skoppaði hann yfir marklínuna.
Chelsea vildi svo fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Ian Maatsen innan vítateigs, en ekkert var dæmt.
Sjáðu atvikið
Staðan 1-0 í leikhlé þó að heimamenn hefðu hæglega getað skorað meira og áttu þeir eftir að fá það í bakið í síðari hálfleik.
Gestirnir frá Birmingham skiptu um gír og sýndu flotta takta. Ollie Watkins jafnaði á 63. mínútu eftir mistök í uppspili Chelsea úr vörninni. Watkins slapp í gegn og náði Robert Sánchez að setja líkamann fyrir marktilraunina hans en það dugði ekki til því boltinn skaust aftur í Watkins og skoppaði þaðan í netið.
Staðan var þá orðin jöfn en áfram héldu yfirburðir gestanna og náði Watkins forystunni með skalla eftir hornspyrnu á 84. mínútu.
Lokatölur 1-2 fyrir Aston Villa sem er á ótrúlegu flugi. Þetta var ellefti sigur liðsins í röð í öllum keppnum. Lærlingar Unai Emery eru í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.
Chelsea situr eftir í 5. sæti með 29 stig eftir 18 umferðir, tíu stigum á eftir Aston Villa.
Athugasemdir


