Roberto De Zerbi, þjálfari Marseille í Frakklandi, segir Mason Greenwood vera heimsklassa leikmenn en vildi þó ekki tjá sig meira um yfirvofandi félagaskipti hans til félagsins.
De Zerbi hætti með Brighton eftir síðustu leiktíð og tók við Marseille.
Hann gæti nú verið að fá hæfileikaríkan leikmann með umdeilda fortíð.
Ítalski þjálfarinn segist þó ekki vita mikið um bakgrunn leikmannsins en fagnar því að fá heimklassa leikmenn eins og Greenwood.
Marseille hefur náð samkomulagi við Manchester United um kaupverð en Greenwood er að klára viðræður um kaup og kjör. Óvíst er hvort Greenwood fari til Marseille enda hafa stuðningsmenn félagsins og borgarstjóri Marseille mótmælt skiptunum harðlega.
„Greenwood er ekki kominn enn þannig það er ekki mikið sem ég get sagt. Hann er meistari og toppleikmaður. Ég veit ekki hvað gerðist og er ekki að einbeita mér að einkalífi leikmanna. Ég þekki ekki bakgrunn hans. Þegar leikmaður skrifar undir hjá félaginu þá lít ég á hann sem barnið mitt. Þó ég taki í eyrað á honum í einrúmi þá mun ég vernda hann opinberlega. Þeir eru eins og synir mínir,“ sagði De Zerbi.
Undarlegt að De Zerbi viti lítið sem ekkert um mál Greenwood sem var framan á forsíðum um allan heim vegna ofbeldis í garð kærustu sinnar, Harriet Robson.
Englendingurinn var handtekinn í febrúar árið 2022 grunaður um að hafa beitt Robson líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi eftir að hún lak myndum og myndböndum af áverkum sínum sem hún sagði vera af hendi leikmannsins. Einnig birti hún hljóðupptöku þar sem hann reynir að þvinga hana til samræðis.
Greenwood var kærður en málið látið niður falla þar sem það var ekki talið líklegt til sakfellingar.
Athugasemdir