
Marokkó skrifaði söguna rétt í þessu; í fyrsta sinn frá upphafi er lið frá Afríku komið í undanúrslit á HM.
Marokkó var í erfiðum riðli með Belgíu, Kanada og Króatíu, en þeir flugu upp úr þeim riðli og fóru með sigur af hólmi í honum.
Þeir lögðu svo Spán í 16-liða úrslitunum eftir vítaspyrnukeppni og höfðu svo betur gegn Portúgal í dag, 1-0. Varnarleikur liðsins hefur verið magnaður og hefur Marokkó aðeins fengið á sig eitt mark á þessu móti en það var sjálfsmark.
Þetta er magnaður árangur, eitthvað sem enginn bjóst við áður en mótið hófst. Það hefur þrisvar gerst að lið frá Afríku komist í átta-liða úrslit; Kamerún 1990, Senegal 2002 og Gana 2010 en aldrei hefur lið frá heimsálfunni komist í undanúrslit - fyrr en núna.
Marokkó mun annað hvort mæta Englandi eða Frakklandi í undanúrslitunum. Það skýrist í kvöld.
Athugasemdir