Dortmund vill Rashford - City að bjóða í Cambiaso - West Ham og Tottenham hafa áhuga á Ansu Fati
   mið 11. maí 2022 21:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: Breiðablik óstöðvandi í upphafi móts
Blikar fagna marki í kvöld.
Blikar fagna marki í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi reyndist uppeldisfélagi sínu erfiður.
Tryggvi reyndist uppeldisfélagi sínu erfiður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA vann á flautumarki.
KA vann á flautumarki.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Breiðablik heldur áfram að vinna sína leiki í Bestu deildinni. Þeir voru ansi nálægt því að tapa sínum fyrstu stigum í kvöld er nágrannarnir í Stjörnunni komu í heimsókn á Kópavogsvöll.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og það stefndi í ansi auðveldan sigur þegar bæði Dagur Dan Þórhallsson og Jason Daði Svanþórsson voru búnir að skora á fyrstu 25 mínútum leiksins.

Stjarnan gafst hins vegar ekki upp og minnkaði muninn stuttu fyrir leikhlé. Guðmundur Baldvin Nökkvason skoraði þá beint úr hornspyrnu, sitt fyrsta mark í efstu deild. Það er strákur sem er fæddur árið 2004. Blikar voru ósáttir við markið og vildu fá brot dæmt.

Blikar hótuðu þriðja markinu framan af í seinni hálfleik, en þeim var refsað fyrir að nýta ekki góðar stöður því Emil Atlason jafnaði metin eftir sendingu frá Ólafi Karli Finsen á 79. mínútu. Emil hefur byrjað tímabilið frábærlega.

En Blikar, þeir náðu að setja sigurmark þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. „Stórkostleg fyrirgjöf frá Höskuldi beint á kollinn á Viktori Erni sem stangar hann inn!" skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í beinni textalýsingu þegar varnarmaðurinn Viktor Örn Margeirsson kom Blikum aftur í forystu. Það var sigurmarkið í leiknum og er Breiðablik með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Algjörlega stórkostleg byrjun á mótinu hjá lærisveinum Óskars Hrafns Þorvaldssonar.

Stjarnan hefur alls ekki farið illa af stað og er þetta fyrsti tapleikur liðsins í sumar. Stjarnan er í fjórða sæti með átta stig.

Valur og KA koma næst - Flautumark á Dalvík
Núna eru þrjú taplaus lið eftir og það eru þrjú efstu liðin. Valur og KA hafa ekki heldur tapað leik.

Valur vann stórsigur gegn ÍA á heimavelli sínum í kvöld. Tryggvi Hrafn Haraldsson reyndist uppeldisfélagi sínu erfiður og skoraði hann tvö mörk.

„Öruggur Valssigur í höfn, Eftir heldur dapran fyrri hálfleik settu Valsmenn í fluggír í þeim seinni og sá Skagamenn aldrei til sólar," skrifaði Sverrir Örn Einarsson þegar hann lauk textalýsingu sinni frá Hlíðarenda. Valur gerði þrjú af fjórum mörkum sínum í seinni hálfleik.

Valur er í öðru sæti með 13 stig, tveimur stigum minna en Breiðablik. ÍA er í áttunda sæti með fimm stig. Eini sigurleikur liðsins til þessa kom gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings.

KA er í þriðja sæti með jafnmörg stig og Valur. KA-menn komust aftur á sigurbraut er þeir tóku á móti FH-ingum á Dalvík í kvöld.

KA-menn voru líklegri til að skora í leiknum en það stefndi lengi vel í markalaust jafntefli. Það breyttist í uppbótartímanum er vítaspyrna var dæmd. Nökkvi Þeyr Þórisson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega. Hann tryggði KA sigurinn með flautumarki, dramatískur sigur staðreynd.

Erfið byrjun hjá FH
FH er aðeins með fjögur stig eftir fimm leiki. Alls ekki byrjunin sem búist var við hjá liðinu, sérstaklega eftir að þeir urðu Lengjubikarmeistarar í vetur. FH er aðeins búið að vinna einn leik og það var gegn Fram, en þó skal tekið fram að leikjaprógammið hefur ekki verið auðvelt fyrir þá.

Breiðablik 3 - 2 Stjarnan
1-0 Dagur Dan Þórhallsson ('15 )
2-0 Jason Daði Svanþórsson ('24 )
2-1 Guðmundur Baldvin Nökkvason ('37 )
2-2 Emil Atlason ('79 )
3-2 Viktor Örn Margeirsson ('85 )
Lestu um leikinn

Valur 4 - 0 ÍA
1-0 Patrick Pedersen ('44 )
2-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('62 )
3-0 Guðmundur Andri Tryggvason ('65 )
4-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('72 )
Lestu um leikinn

KA 1 - 0 FH
1-0 Nökkvi Þeyr Þórisson ('93 , víti)
Lestu um leikinn

Önnur úrslit:
Besta deildin: KR gerði góða ferð til Eyja
Athugasemdir
banner
banner