Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   fim 11. júlí 2024 22:13
Ívan Guðjón Baldursson
Valsmönnum hótað af gestunum frá Albaníu - Lögregla kölluð til
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var allt brjálað eftir lokaflautið í 2-2 jafntefli Vals gegn Vllaznia í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.

Gestirnir frá Albaníu voru allt annað en sáttir með þann langa uppbótartíma sem var spilaður í leiknum, þar sem jöfnunarmark Vals leit ekki dagsins ljós fyrr en á 99. mínútu.

Einn stjórnarmaður hjá Vllaznia brást illa við og kastaði flösku úr stúkunni í átt að dómaranum. Þá hræktu einhverjir úr stuðningsmannahópi gestanna á dómarateymið þegar það gekk af velli auk þess sem stjórnarmenn albanska liðsins eru sagðir hafa hótað stjórnarmönnum Vals lífláti ef þeir færu með liðinu út á seinni leikinn.

Þar að auki var kastað flösku í Tim Marshall, norður-írska dómara leiksins, þegar hann var á leið sinni af velli.

Lögregla var kölluð á svæðið til að reyna að hafa hemil á mönnum.

Stjórnarmennn Vals funduðu með eftirlitsmanni UEFA að leikslokum og fékk hann þær upptökur sem voru í boði.

Næstu skref eru óljós og er mögulegt að seinni leikurinn verði færður frá Albaníu í kjölfar þessara hótana.
Athugasemdir
banner