fös 11. júlí 2025 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
Hvað gerist næst eftir vonbrigðin á EM?
Icelandair
EM KVK 2025
Vonbrigðin á EM voru svakaleg.
Vonbrigðin á EM voru svakaleg.
Mynd: EPA
Fær Þorsteinn Halldórsson það verkefni að koma Íslandi á EM?
Fær Þorsteinn Halldórsson það verkefni að koma Íslandi á EM?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ísland hefur lokið leik á Evrópumótinu 2025. Vonbrigðin eru gríðarleg svo ekki sé meira sagt.

En þá er það bara næsta mál á dagskrá sem er að reyna að koma sér inn á heimsmeistaramótið í Brasilíu sem fer fram 2027. Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist inn á HM en það er vonandi að við getum breytt því núna

Til þess að það gerist hins vegar þá þarf liðið að bæta sinn leik frá Evrópumótinu, það er nokkuð ljóst. Frammistaðan á köflum var allt í lagi en það vantaði mikið upp á til þess að geta gert einhverja hluti á þessu móti. Á stóru augnablikunum var liðið einfaldlega ekki nægilega gott.

Næstu stóru leikir landsliðsins eru gegn Norður-Írlandi í október. Það eru leikir í umspili um að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar, en það er spurning hvort nýr þjálfari verði með liðið í þeim leikjum. Þorsteinn Halldórsson er með samning áfram út undankeppni HM en hann mun setjast niður með KSÍ eftir vonbrigðin í Sviss og fara yfir málin. Þorsteinn hefur stýrt landsliðinu frá því í byrjun árs 2021 með misjöfnum árangri.

Undankeppni HM hefst svo í febrúar 2026 en við fáum að vita með undanriðilinn okkar í nóvember þegar einvígi okkar við Norður-Írland er lokið. Þá vitum við hvort við verðum í A-deild eða ekki. Undankeppnin tengist inn í Þjóðadeildina, líkt og var fyrir síðustu undankeppni Evrópumótsins.

Ef við erum áfram í A-deild þá förum við í fjögurra liða undanriðil sem berst um að komast beint á HM. Það verða fjórir riðlar í A-deild þar sem liðin í efsta sæti í hverjum riðli fara beint á HM. Öll hin liðin í A-deild fara í umspil ásamt liðum úr B-deild og C-deild. Allt saman frekar flókið en þetta verður útskýrt nánar síðar. Alls gætu allt að tólf lið frá Evrópu komist inn á HM og það er vonandi að Ísland verði eitt þeirra í fyrsta sinn í sögunni. Við vorum gríðarlega nálægt því síðast en töpuðum grátlega fyrir Hollandi og svo fyrir Portúgal.
Athugasemdir
banner