Tottenham í bílstjórasætinu um Akanji - Chelsea undirbýr tilboð - Verður Rogers arftaki Elliott hjá Liverpool?
   sun 31. ágúst 2025 17:19
Brynjar Ingi Erluson
Stefán Ingi setti boltann í eigið net - Viking upp að hlið Bodö/Glimt
Stefán Ingi skoraði, en í þetta sinn var það því miður í eigið net
Stefán Ingi skoraði, en í þetta sinn var það því miður í eigið net
Mynd: Sandefjord
Markaskorarinn mikli Stefán Ingi Sigurðarson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í 2-1 tapi gegn toppliði Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Stefán hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu og farinn að vekja athygli hjá stærri félögum um alla Evrópu.

Hann kom sér vissulega á blað í dag, en það var einn hængur á og það var að hann setti boltann í eigið net.

Staðan var 1-1 þegar tuttugu mínútur voru eftir. Bodö/Glimt fékk hornspyrnu sem Villad Nielsen skallaði í lærið á Zinedin Smajlovic, varnarmanni Sandefjord og á leið í átt að marki áður en Stefán Ingi, sem reyndi að hreinsa, setti hann óvart í eigið net sem reyndist síðan sigurmark gestanna.

Bodö/Glimt er áfram á toppnum með 45 stig en Sandefjord í 7. sæti með 28 stig.

Viðar Ari Jónsson spilaði fyrri hálfleikinn hjá Ham/Kam sem tapaði fyrir Sarpsborg, 3-1. Sveinn Aron Guðjohnsen lék síðasta hálftímann hjá Sarpsborg. Ham/Kam er í 13. sæti með 21 stig en Sarpsborg í 11. sæti með 25 stig.

Hilmir Rafn Mikaelsson lék þá síðustu tíu mínúturnar í 2-1 sigri Viking á Rosenborg. Viking fór aftur upp að hlið Bodö/Glimt á toppnum.

Davíð Snær Jóhannsson og Ólafur Guðmundsson byrjuðu báðir hjá Álasundi sem tapaði fyrir Egersund, 3-2, í B-deildinni í Noregi. Álasund er í 6. sæti með 32 stig.
Athugasemdir
banner