
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, segist geta tekið ýmislegt jákvætt úr fyrsta leiknum undir sinni stjórn. Ísland tapaði 1-0 gegn Ítalíu á laugardag en Þorsteinn sá jákvæða punkta í leiknum.
„Jákvætt var að við héldum boltanum vel. Það voru leiðir sem við gátum farið en vorum ekki að nýta. Við hefðum getað opnað þær betur. Þetta er fyrsti leikur og það var ekki hægt að troða öllu inn. Það var jákvætt að við vorum óhræddar við að vera með boltann og stýra leiknum. Þegar við töpuðum houm vorum við þétt til baka og gáfum fá færi á okkur. Það voru jákvæðir punktar varnar og sóknarlega," sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í dag.
„Auðvitað hefði maður viljað skora og búa til fleiri færi. Ég var ekki ósáttur við sóknarleikinn en við sáum hluti sem við hefðum getað gert betur. Þau áhersluatrði sem við vildum að kæmu fram komu fram að mörgu leyti. Við vorum sáttir með það."
Vilja halda bolta
Þorsteinn hefur lagt mikla áherslu á það að hann vilji sjá íslenska liðið halda boltanum vel.
„Við viljum spila svona. Við þurfum að þora að vera með hann.
Við viljum ekki bara verjast. Við viljum vera þolinmóð með boltann og bíða eftir að tækifærin detti inn með ákveðnum hlaupum og hreyfingum. Ég vil að við spilum svona. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta fer allt eftir andstæðingum."
„Ítalska liðið er gott og verður ennþá sterkara á morgun. Við gerum okkur grein fyrir því að við verðum minna með boltann í sumum leikjum. Við viljum reyna að vera með boltann, grípa sénsinn og skapa færi og skora mörk. Það skiptir máli að vera ekki bara að verjast. Við viljum vera með boltann og stýra leiknum."
4-5 breytingar á morgun
Ísland og Ítalía mætast aftur á morgun. „Það eru allar heilar og það verða þónokkrar breytingar. Við verðum með 4-5 breytingar sýnist mér," sagði Þorsteinn aðspurður út í byrjunarliðið en hann er mjög ánægður með að fá þessa leiki.
„Það skiptir öllu máli að slípa liðið til og fá verkefni sem hjálpar til við að undirbúa okkur fyrir leikina sem skipta máli og telja. Í síðasta glugga hjá karlaliðunum var ekki auðvelt að fá 2-3 daga til að undirbúa sig fyrir verkefni í riðlakeppninni. Þetta hjálpar okkur mikið vonandi mikið í haust."
Sara Björk Gunnarsdóttir er fjarri góðu gamni vegna meiðsla en aðrir leikmenn fá aukna ábyrgð á meðan. „Auðvitað er Sara Björk frábær leikmaður og mikilvæg fyrir liðið. Það er partur af þessu að leikmenn lenda í meiðslum og þá þurfum við að hafa leikmenn sem axla ábyrgð og stíga upp. Liðið þarf að funkera þannig að allir séu tilbúnir að taka ábyrgð, vera leiðtogara og þora að takast á við það að vera stórir karakterar í liðinu."
Athugasemdir