Klukkutíma fyrir leik Stjörnunnar og Breiðabliks var leikskýrslan opinberuð, bæði lið með ellefu menn skráða í sín byrjunarlið og sjö leikmenn á bekknum.
Skömmu síðar eru gerðar nokkrar breytingar á liðsvali Stjörnunnar og menn færðir úr byrjunarliðinu á bekkinn og öfugt.
Skömmu síðar eru gerðar nokkrar breytingar á liðsvali Stjörnunnar og menn færðir úr byrjunarliðinu á bekkinn og öfugt.
Ég hélt að ef slíkar breytingar væru gerðar þá mættu leikmennirnir sem teknir eru úr byrjunarliðinu ekki taka þátt í leiknum, mættu ekki vera til taks á bekknum.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem meistaraflokkur Stjörnunnar hróflar í liðinu eftir að skýrslan er fyrst opinberuð og hingað til hefur refsingin verið engin. Liðið gerði þetta í fyrsta skiptið vorið 2023 og hefur þetta gerst nokkrum sinnum síðan.
Í gær var afsökun Jökuls Elísabetarsonar þjálfara að liðsstjórinn væri í útlöndum. Þess vegna hafi verið gerð „mistök" þegar skýrslunni var fyrst skilað.
Ég einfaldlega bið Stjörnuna að hætta þessu. Leikjapennar Fótbolta.net á leikjum Stjörnunnar vanda sig við það að lesa í byrjunarliðsval þjálfara, skrifa um það frétt og fá svo í andlitið að fréttin er svo gott sem ónýt nokkrum mínútum síðar.
Til hvers á annars þessi regla að vera að leikskýrsla skal vera klár klukkutíma fyrir leik og birt á heimasíðu KSÍ. Það er vel hægt að skilja að þú viljir ekki að andstæðingurinn viti hverjir verða í byrjunarliðinu fyrir þann tíma, en klukkutíma fyrir leik eiga allir að standa á sama stað.
Tilgangurinn með þessu er væntanlega sá að reyna að rugla andstæðingana þegar stutt er í leik. Það breytir öllu hjá andstæðingnum hvort að Emil Atlason sé í byrjunarliðinu eða ekki.
Það gerir þetta ekkert annað lið, og þegar þetta gerist oftar en einu sinni, þá er þetta ekki lengur óvart. Mér finnst þetta kjánalegt, óboðlegt og langt í frá faglegt.
Fótbolti.net ræddi við Birki Sveinsson, mótastjóra KSÍ, í morgun og var hann spurður út í þessar skýrslubreytingar hjá Stjörnunni.
„Ég veit ekki alveg málavextina í gær og er að kynna mér þá. Þú talar um reglulega, og ég veit ekki heldur með það. Við heyrðum af þessu í gær og erum að afla gagna."
„Það eru ákvæði í okkar reglugerðum sem taka á svona leikskýrslumálum og þau eru á tvo vegu. Annars vegar sektir fyrir rangt útfyllta leikskýrslu og svo eru hins vegar mun alvarlegri ákvæði ef um vísvitandi fölsun á leikskýrslu er að ræða," segir Birkir.
Athugasemdir