Valgeir er í dag leikmaður Fortuna Düsseldorf í Þýskalandi. Þar er hann liðsfélagi Ísaks Bergmanns Jóhannessonar.
Í gær var norski þjálfarinn Per-Mathias Högmo orðaður við íslenska karlalandsliðið. KSÍ er í þjálfaraleit eftir að Age Hareide ákvað að leggja þjálfaramöppuna á hilluna í síðasta mánuði.
Högmo er 65 ára og hefur verið án starfs síðan í ágúst þegar hann var rekinn sem þjálfari Urawa Red Diamonds í Japan. Þar á undan var hann þjálfari Häcken í Svíþjóð. Hann er ekki eingöngu orðaður við íslenska landsliðið heldur er hann líka orðaður við endurkomu til Häcken.
Ásamt því að hafa þjálfað í Japan og hjá Häcken hefur Högmo stýrt norska landsliðinu og tímabilið 2006 gerði hann Rosenborg að norskum meisturum.
Hjá Häcken var hann þjálfari Valgeirs Lunddals Friðrikssonar. Þeir unnu saman í tvö og hálft tímabil og á þeim tíma var Häcken bæði sænskur meistari og bikarmeistari. Fótbolti.net ræddi við Valgeir um Högmo.
Högmo er 65 ára og hefur verið án starfs síðan í ágúst þegar hann var rekinn sem þjálfari Urawa Red Diamonds í Japan. Þar á undan var hann þjálfari Häcken í Svíþjóð. Hann er ekki eingöngu orðaður við íslenska landsliðið heldur er hann líka orðaður við endurkomu til Häcken.
Ásamt því að hafa þjálfað í Japan og hjá Häcken hefur Högmo stýrt norska landsliðinu og tímabilið 2006 gerði hann Rosenborg að norskum meisturum.
Hjá Häcken var hann þjálfari Valgeirs Lunddals Friðrikssonar. Þeir unnu saman í tvö og hálft tímabil og á þeim tíma var Häcken bæði sænskur meistari og bikarmeistari. Fótbolti.net ræddi við Valgeir um Högmo.
Unnu bæði deild og bikar
„Hann þjálfaði mig í tvö og hálft ár hjá Häcken, spiluðum flottan fótbolta undir hans stjórn og afrekuðum margt með hann sem þjálfara. Við unnum deildina, unnum bikarinn og fórum í riðlakeppni í Evrópu. Ég hef bara góð orð um hann að segja - bæði sem manneskju og þjálfara. Hann hjálpaði mér mikið í gegnum þessi ár," segir Valgeir.
Högmo tók við Häcken um mitt mót 2021, tók þá við af Andreas Alm.
„Hann tók við hálfu ári eftir að ég kom út. Þegar ég kom út var annar þjálfari og gengið var ekki gott. Það varð svo þjálfarabreyting um sumarið þegar Per-Mathias tók við. Við náðum að halda okkur uppi í deildinni eftir dapra byrjun. Svo urðum við meistarar 2022."
„Þegar hann kom snerist þetta um að halda liðinu uppi og hann kom ekki alveg strax með mikið af sínum hugmyndum inn, þetta snerist bara um að lifa af á þeim tímapunkti. 2022 breyttist hellingur, við byrjuðum að spila mjög flottan fótbolta og vorum auðvitað með mjög flott lið. Hann á að sjálfsögðu mikinn þátt í þeim árangri sem liðið náði."
„Manager týpa"
Er hann mikill þjálfari (coach) eða er hann meiri stjóri (manager)?
„Hann er manager týpa, mín reynsla af honum er sú að hann vill halda öllum í kringum liðið góðum. Hann kemur auðvitað með sínar hugmyndir um hvernig við eigum að vera á vellinum og allt þannig, en hann lætur kannski aðstoðarþjálfarann eða aðra í teyminu sjá um æfingarnar og bætir svo sínum punktum við. Hann er meira í því að tala við hvern leikmann fyrir sig. Hann kom til manns á æfingasvæðinu og sagði hvað ég mætti gera betur og slíkt."
„Hann átti það líka til að halda ræður, gat sett sig í öll hlutverk; gat látið menn heyra það þegar það átti við og var líka fyrsti maður til að peppa þig. Hann er að mínu mati einn besti þjálfari sem hefur þjálfað mig."
Mikið skipulag og spilað 4-3-3
Er hann mjög taktískur?
„Á tíma mínum hjá Häcken var mjög mikið skipulag, skýrt hvernig við vildum pressa andstæðinginn og hvernig við vildum spila boltanum út frá marki."
„Við spiluðum eiginlega alltaf sama kerfið, vorum í 4-3-3, kerfi sem hentaði okkar liði langbest. Við vorum með vel spilandi miðjumenn sem gátu skapað eitthvað úr engu. Undir lok leikja skiptum við stundum í þriggja manna vörn til þess að loka."
Valgeir var sáttur með sitt hlutverk undir stjórn Högmo. „Á löngum köflum var ég í stóru hlutverki. Ég spilaði ekki mikið á fyrsta tímabilinu. Eftir tímabilið 2021 var keyptur norskur hægri bakvörður sem átti að byrja alla leiki. Ég náði að sýna mig og sanna, vann mig inn í liðið og varð fastamaður."
Gæti gert góða hluti með landsliðið
Hvernig er hugsunin að spila mögulega aftur hans stjórn og þá í bláu landsliðstreyjunni?
„Það væri gaman að fá mögulega að spila undir hans stjórn aftur. Við áttum frábæran tíma saman í Häcken, er með betri þjálfurum sem hafa þjálfað mig í gegnum ferilinn og ég væri bara hæstánægður ef hann myndi taka við. Ég tel að hann gæti gert góða hluti með landsliðið," segir Valgeir.
Valgeir er 23 ára og á að baki 15 A-landsleiki. Hann hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu fjórum leikjum landsliðsins.
Athugasemdir