Ólafur hefur unnið titil á hverju ári með Val en félagið hefur ekki boðið honum áframhaldandi samning.
Ólafur Jóhannesson mun líklega hætta þjálfun Vals eftir tímabilið samkvæmt heimildum Fótbolta.net.
Ólafur sagði við Fótbolta.net eftir tap gegn ÍBV sunnudaginn 1. september að hann vildi halda áfram með liðið.
Hann sagði þá að hann myndi funda með Val um framhaldið daginn eftir. Þrátt fyrir það hefur ekkert orðið af fundi milli hans og Vals á þeim 12 dögum sem eru liðnir síðan þá.
„Ég á mánuð eftir af samningnum en við ætlum að setjast niður á morgun og fara yfir þá hluti. Ég vil vera áfram og það er ekki spurning um það," sagði Ólafur 1. september.
Samningur hans við Val mun renna út í október og allar líkur eru á að Valur muni ekki bjóða honum áframhaldandi samning.
Ólafur sem er 62 ára gamall tók við Val fyrir tímabilið 2015 og hefur unnið titil á hverju ári með liðið.
Hann gerði Val að bikarmeisturum 2015 og 2016 og Íslandsmeisturum 2017 og 2018. Hann er fyrrverrandi landsliðsþjálfari Íslands en áður átti hann afar farsælan þjálfaraferil með FH þar sem hann vann titil fjögur ár í röð.
Valur fór mjög illa af stað í Pepsi Max-deildinni í sumar en komst í gang þegar leið á og nú þegar þrjár umferðir eru eftir eru þeir í 5. sætinu með 25 stig.
Liðið mætir toppliði KR á Origo-vellinum á mánudagskvöld.
Heimir Guðjónsson þjálfari HB í Færeyjum hefur verið orðaður við endurkomu til Íslands og meðal annars verið orðaður við Val.
Athugasemdir