Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 13. september 2024 21:01
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Reikna með fleiri Breiðhyltingum en Mosfellingum á morgun"
Lengjudeildin
Þjálfararnir Jóhann Birnir Guðmundsson og Árni Freyr Guðnason.
Þjálfararnir Jóhann Birnir Guðmundsson og Árni Freyr Guðnason.
Mynd: ÍR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn mætt vel á útileiki ÍR. Mætingin verður svo enn meiri á morgun.
Stuðningsmenn mætt vel á útileiki ÍR. Mætingin verður svo enn meiri á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Cogic.
Elmar Cogic.
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stemning í stúkunni.
Stemning í stúkunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta er spennandi og skemmtilegt fyrir klúbbinn að vera í þeirri stöðu að berjast um að komast í umspilið. Það eru ekkert margir leikmenn sem hafa verið í þessari stöðu. Liðið fór upp um deild í fyrra, það eru kannski einhverjir fimm sem hafa spilað í þessari deild. Þetta er bara nýtt fyrir alla," segir Árni Freyr Guðnason, annar af þjálfurum ÍR, við Fótbolta.net í dag.

Framundan er risaleikur gegn Aftureldingu á morgun þar sem sigurliðið tryggir sér sæti í umspilinu í Lengjudeildinni. Tapliðið þarf að treysta á að Njarðvík vinni ekki Grindavík og ef jafntefli verður niðurstaðan þá þarf Afturelding að vona að Njarðvík vinni ekki Grindavík.

Fundu að þeir voru ekki verri en hin liðin
Á undirbúningstímabilinu, fyrir tímabilið, óraði ykkur eitthvað fyrir að þið gætuð verið í þessum möguleika á þessum tímapunkti mótsins?

„Við náðum í góð úrslit í eiginlega öllum leikjunum á undirbúningstímabilinu. Það var eiginlega bara leikurinn gegn Val í Lengjubikarnum og Víkingsleikurinn í Reykjavíkurmótinu þar sem við áttum ekki breik. Samt vorum við 2-0 yfir á móti Val eftir tíu mínútur."

„Í hinum leikjunum stóðum við öflugum liðum. Maður er samt oft brenndur á því að það séu vor- og vetrarleikir. Það segir ekki alltaf alla söguna. En svo fórum við í fyrsta leik á móti Keflavík og Grindavík og þá fundum við að við vorum ekkert verri en þessi lið á okkar degi. Við erum í sömu deild og þau lið."

„Markmiðið var bara að falla ekki, ég held ég sé búinn að segja það svona 19 sinnum í viðtölum við ykkur á Fótbolta.net að við ætluðum ekki að falla. Þegar við vorum búnir að bjarga okkur frá falli þá þurfti ég náttúrulega að segja eitthvað annað. Þá vorum við í umspilinu og auðvitað settum stefnu á að verða þar. Fyrirkomulagið er þannig að það er oft mjög stutt frá fallsvæðinu og í umspilið. Ef þú bjargar þér frá falli þá ertu í baráttu um umspilið, þetta helst svolítið í hendur."


Voru orðnir hálfruglaðir á Árna
Var einhver tímapunktur þar sem þið hugsuðuð að það væri ekki séns á því að þið væruð að fara falla?

„Við nálguðumst það ekki þannig. Vinir mínir í hinni vinnunni voru orðnir hálfruglaðir á mér þegar ég sagði að við þyrftum bara að passa okkur á að falla ekki. Þá vorum við kannski níu stigum frá fallsvæðinu og tólf stig eftir í pottinum. Við hefðum alveg getað farið á eitthvað 'run' eins og önnur lið og tapað fjórum leikjum í röð. Við höfum bara haldið sjó og strákarnir fá hrós fyrir það. Sama á móti hvaða liði, sérstaklega á heimavelli þar sem við höfum verið fáránlega góðir, þá höfum við farið í alla leiki til þess að vinna þá. Það eru eiginlega bara ÍBV leikirnir sem við getum sagt að við höfum fengið eitthvað út úr leiknum þrátt fyrir að hafa verið slakari aðilinn. Það eru fleiri leikir sem við höfum annað hvort tapað eða gert jafntefli þar sem við höfum viljað fá meira úr."

„Við töpuðum 5-0 fyrir Þrótti, vorum ekki með í þeim leik. Eftir Leiknisleikinn sagði ég við ykkur í viðtali að hvorugt liðið ætti skilið að fá stig af því það var svo lélegur leikur. Við erum alveg hreinskilnir með það þegar við erum ekki góðir, þá erum við ekki góðir. Strákarnir fá alveg að vita þegar við erum ekki ánægðir með þá og eins þegar við erum mjög ánægðir með þá."


Ekki af ástæðulausu að sigursælu þjálfararnir tala um grunnvinnu
ÍR þarf að gera „þetta klassíska" til að ná í úrslit á morgun.

„Það þarf að berjast og allt þetta. Þessi íþrótt er bara þannig að ef þú ert ekki með grunnvinnuna í lagi, þá lendirðu bara í vandræðum. Það er ekkert að ástæðulausu að Heimir Guðjóns og Arnar Gunnlaugs tala um þetta, grunnvinnan er algjört lykilatriði í þessari deild. Þessi fótbolti í deildinni er svo mikill bardagi, þegar við höfum náð baráttunni þá erum við helvíti 'solid', sérstaklega varnarlega og erum líka hættulegir sóknarlega. Svo þurfum við að ná upp stemningu inn á vellinum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af stuðningnum úr stúkunni, hann verður góður. Ég held að það verði fullt af fólki og hrikaleg stemning. Ef við náum að fá orkuna frá stuðningsmönnunum með okkur, þá held ég að við klárum þetta."

Reiknar með fleiri Breiðhyltingum en Mosfellingum á morgun
Stuðningsmenn ÍR hafa verið frábærir allt tímabilið. Það skiptir liðið miklu máli að finna fyrir stuðningnum.

„Þetta skiptir auðvitað miklu máli. Þeir hafa kannski 1-2 farið yfir línuna og við fengið einhverjar sektir, en það fylgir þessu bara. Þau öll, sem hafa stutt okkur, eru búin að vera geggjuð. Þetta skiptir okkur miklu máli, sérstaklega fyrir strákana sem hafa ekki upplifað þetta áður."

„Í fyrra spiluðum við leiki í 2. deild á miðju sumri og það voru kannski 50 manns á vellinum - bara fjölskylda og vinir. Svo kom KFA leikurinn í lokin, þar var fullt af fólki og einhverjir fóru á Egilsstaði í lokin þar sem var stemning. Svo hefur þetta verið frábært í sumar, í eiginlega öllum leikjum, það hefur alltaf einhver kjarni komið. Það hefur bara verið að bætast í hópinn og ég reikna bara með því að það verði fleiri Breiðhyltingar en Mosfellingar á morgun."


Erfitt að fara fram á eitthvað ef þú getur ekki neitt
Það er hvatning hjá flestum fótboltamönnum að reyna vinna leikina sem þeir spila, en það fer að skipta aðeins meira máli þegar þá ekki bara að vinna sigurinn fyrir þig sjálfan og liðið, heldur stuðningsmennina líka.

„Algjörlega. Það er uppgangur í félaginu. Þegar ég tók við á miðju tímabili 2022 þá sagði ég að staðan væri nákvæmlega eins og þegar ég var þarna sem leikmaður. Annars staðar var búin að vera ákveðin uppbygging; á klefum, völlum, stúkum og öllu því. En hjá ÍR var þetta nákvæmlega eins. Við ræddum það, sérstaklega þegar ný stjórn kom, að til þess að við gætum litið á okkur sem eitthvað fótboltalið, til þess að fá eitthvað og geta gert eitthvað - þá verðum við auðvitað að geta eitthvað. Það er ekki hægt að fara fram á að vera í 2. deild og vilja fá 1500 manna stúku, nýtt gervigras og nýjan völl, og geta svo ekki neitt. Það er allavega erfiðara í Reykjavík að gera það þannig."

„Svo hefur þetta spilast þannig að það er bara ógeðslega gaman að vera í ÍR, það er gleði á öllum æfingum og stemning. Við erum búin að byrja 22 leikmönnum í sumar, sem er líklega eitthvað Evrópumet, sérstaklega fyrir lið sem gengur vel. Það eru bara allir að leggja í púkkið, þannig viljum við hafa þetta. Hver sem spilar á morgun, þeir verða bara að standa sig, og þeir munu gera það."


Þjálfarinn segir að allir í hópnum séu klárir í að spila, það hafi allavega allir verið með á æfingu í gær.

„Ég held það séu allir með, en ég gæti alveg verið að ljúga að þér og það séu allir meiddir," sagði Árni á léttu nótunum.

Þarf að stoppa Elmar Cogic
Hvað þarf ÍR að gera til að stoppa Aftureldingu?

„Við erum búnir að skoða þá. Maður svæfir börnin sín á kvöldin og horfir svo á Lengjudeildina og pælir í þessu, horfir á alla leiki. En við Jói erum ekki að troða of mikið af upplýsingum á leikmenn. Við leyfum þeim svolítið að spila, erum meira að fókusa á okkur heldur en á hin liðin. Við vitum alveg í hverju þeir eru góðir. Við þurfum að stoppa Elmar Cogic, hann má ekki vera mikið í boltanum, og við þurfum að vera agressífir þegar þeir eru að halda í hann. Þeir eru rosalega gott 'possession' lið, eru miklu sterkari á gervigrasi heldur en á grasi."

Verður að brjóta andstæðinginn
„Ég held að þetta séu svipuð lið hvað varðar stemningu. Það var gríðarleg stemning með þeim í fyrra þótt að þeir hafi ekki náð að klára þetta. Ég get ímyndað mér að þetta sé svipað og hjá okkur núna, það héldu einhvern veginn rosalega margir með þeim. En, eins og í fyrri leiknum á móti okkur, þegar það fór að ganga illa, þá fann maður að þeir brotnuðu aðeins. Við þurfum bara að brjóta þá, um það snýst þessi íþrótt. Þú verður að brjóta andstæðinginn."

Oft talað um að þurfa vinna
Horfir Árni á þetta þannig að pressan sé á Aftureldingu en ekki ÍR?

„Nei nei, við setjum bara pressu á okkur sjálfa, við viljum fara í þetta umspil. Við erum með setningu innan okkar herbúðum sem er orðin svolítið þreytt: það er oft talað um að þurfa að vinna leiki. Maður þarf ekki að vinna neitt, maður þarf ekki að gera neitt, þetta er bara spurning um hvað mann langar að gera. Okkur langar að fara áfram og ætlum okkur að gera það. Menn verða að leggja vinnu í þetta og árangurinn fer dálítið eftir því hversu mikið þú leggur inn í bankann. Ef við ætlum að gera þetta á 70% tempói, þá náttúrulega valta þeir yfir okkur. En ef við gerum þetta eins vel og við getum, þá erum við alls ekki með verra lið en þeir," segir Árni.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 14:00.
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 22 11 6 5 50 - 27 +23 39
2.    Keflavík 22 10 8 4 37 - 24 +13 38
3.    Fjölnir 22 10 7 5 34 - 28 +6 37
4.    Afturelding 22 11 3 8 39 - 36 +3 36
5.    ÍR 22 9 8 5 30 - 28 +2 35
6.    Njarðvík 22 8 9 5 34 - 29 +5 33
7.    Þróttur R. 22 8 6 8 37 - 31 +6 30
8.    Leiknir R. 22 8 4 10 33 - 34 -1 28
9.    Grindavík 22 6 8 8 40 - 46 -6 26
10.    Þór 22 6 8 8 32 - 38 -6 26
11.    Grótta 22 4 4 14 31 - 50 -19 16
12.    Dalvík/Reynir 22 2 7 13 23 - 49 -26 13
Athugasemdir
banner
banner
banner