Á morgun mætast Afturelding og ÍR í lokaumferð Lengjudeildarinnar. Liðin sitja í 4. og 5. sæti deildarinnar fyrir leikinn, ÍR með tveimur stigum meira en Afturelding.
Liðin í 2.-5. sæti deildarinnar fara í umspil. Liðið í 6. sætinu, Njarðvík, spilar á sama tíma gegn Grindavík og mun með sigri þar tryggja sér sæti í umspilinu.
Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, og var hann spurður út í lokaleik deildarinnar.
Liðin í 2.-5. sæti deildarinnar fara í umspil. Liðið í 6. sætinu, Njarðvík, spilar á sama tíma gegn Grindavík og mun með sigri þar tryggja sér sæti í umspilinu.
Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, og var hann spurður út í lokaleik deildarinnar.
„Þetta verður hörku leikur sem verður gaman að spila. Við spilum á okkar velli, gaman að eiga stórleik í lokaumferðinni. Við höfum spilað stóra leiki í ár og í fyrra leiki, þetta verður bara einn til viðbótar. Við höfum verið á mjög góðu skriði að undanförnu, verið í þeirri stöðu að þurfa vinna nánast alla leiki og höfum verið að vinna flesta leiki. Við erum í baráttu um sæti í umspilinu og ætlum að klára dæmið á morgun," segir Maggi.
Afturelding hafði unnið fjóra leiki í röð þar til liðið tapaði gegn Fjölni í síðustu umferð.
„Við vorum ekki á okkar besta degi á móti Fjölni. Fjölnir stóð sig vel og vann þann leik. Fram að þeim leik höfðum við unnið fimm af síðustu sex og verið á mjög góðu skriði. Það kemur fyrir hjá öllum liðum að þau tapi leik og eigi 'off' dag, og það var þannig hjá okkur um síðustu helgi. En við erum búnir að fara yfir það sem þarf að laga og mætum gíraðir á móti ÍR á morgun, það er engin spurning."
Er upplegg á móti ÍR öðruvísi heldur en upplegg á móti Fjölni?
„Við reynum oftast að spila svipað og ég held að það skíni svolítið í gegn hvernig við spilum fótbolta. Nálgunin er mjög svipuð í alla leiki. Þó að það sé eitthvað öðruvísi á milli leikja, þá reynum við alltaf að gera það sem við erum góðir í og reynum að ná þeirri frammistöðu sem við sýndum í leikjunum á undan Fjölnisleiknum. Ef við náum því, þá er ég mjög bjartsýnn á góð úrslit á morgun."
„Þá á enginn roð í þá"
Georg Bjarnason og Sævar Atli Hugason eru í leikbanni á morgun en Afturelding endurheimtir þá Jökul Andrésson og Bjarna Pál Linnet af fæðingardeildinni.
„Það verður gaman að spila á morgun, ég vona að það mæti sem flestir á völlinn og styðji okkur. Við fengum frábæran stuðning í fyrra, og sérstaklega í úrslitakeppninni sjálfri. Ég held að það sé enginn sem getur toppað okkar stuðningsmenn þegar þeir mæta. Eins og þeir gerðu í fyrra, í úrslitakeppninni, þá á enginn roð í þá. Við eigum frábæra stuðningsmenn og mér skilst að þeir séu að gíra sig upp fyrir morgundaginn. Þetta verður skemmtilegur laugardagur á Varmá og ég er alveg viss um að við munum fá góðan stuðning úr stúkunni og nýtum þá orku til að gera góða hluti inn á vellinum."
Maggi talar um öfluga stuðningsmenn Aftureldingar. ÍR-ingar í stúkunni hafa verið mjög öflugir á þessu tímabili og stutt vel við sitt lið.
„Í fyrra var magnað að sjá stuðninginn. Stuðningsmennirnir okkar eru harðir, hafa mikla ástríðu fyrir þessu, og ég er viss um að þeir munu láta vel í sér á morgun og hjálpa okkur að vinna og framlengja tímabilið. Ég hlakka bara til að mæta á Varmá á morgun og sjá fullt af fólki í rauðu í stúkunni sem mun láta vel í sér heyra. Þetta verður hrikalega skemmtilegur dagur og ég hvet bara alla til að mæta á leikinn, hvort sem það séu Mosfellingar eða ekki, það verður bara gaman að fá fullt af fólki á Varmá. Það eru alltaf skemmtilegir leikir þegar það er full stúka og við munum njóta þess að spila á morgun."
ÍR á fullt hrós skilið
Hvað þarf Afturelding að gera til að vinna ÍR?
„Við þurfum bara að spila okkar leik, spila eins og við höfum gert í síðustu leikjum. Við höfum verið góðir undanfarnar vikur, verið mjög góðir í síðustu tveimur heimaleikjum og þurfum að taka það með inn í þennan leik. Okkur líður vel á okkar velli og þurfum að nýta það til að spila okkar leik. Ef við nýtum okkar styrkleika þá eru góðar líkur á niðurstaðan verði góð. Við þurfum að mæta grimmir og gíraðir og sýna hversu mikið við viljum þetta."
„ÍR-ingar eiga fullt hrós skilið fyrir frábært tímabil. Þeir eru búnir að standa sig mjög vel og eru búnir að vera á mjög góðu skriði eins og við. Þeir eru með öfluga leikmenn innan sinna raða sem við þurfum að hafa gætur á. Svo eru þeir öflugir í návígum og föstum leikatriðum, við þurfum að vera á tánum. Við undirbúum okkur vel og verðum klárir í að taka á móti þeim á morgun."
Með hlutina í sínum höndum
Maggi segir að hann muni, allavega ekki til að byrja með, fylgjast með úrslitum á öðrum völlum. „Þetta er allt í okkar höndum og skiptir okkur ekki máli hvað sé í gangi annars staðar ef við klárum okkar verkefni. Ég verð með fulla einbeitingu á okkur, við viljum vinna okkar leik, og þá erum við góðir. Við getum ekki stjórnað því hvað sé í gangi annars staðar."
Árangurinn á heimavelli í takt við tímabilið
Afturelding er með næst lakasta árangurinn á heimavelli í deildinni þrátt fyrir tvo heimasigra í röð. Hvað útskýrir dapurt gengi á heimavelli?
„Ég held það sé bara í takti við tímabilið okkar. Við spiluðum ágætlega fyrri hluta sumars en vorum ekki að ná úrslitum. Seinni hluta sumars höfum við spilað ennþá betur og náð úrslitum. Það á við bæði heima og að heiman. Við höfum ekki tapað heimaleik síðan í júlí og verið á mjög fínu skriði; spilað betur með hverjum leiknum á heimavelli. Ég sé enga ástæðu fyrir því að það verði ekki framhald af því á morgun. Við höfum unnið marga leiki á þessum velli í gegnum tíðina og líður vel þarna. Það verður bara gaman að fá ÍR í heimsókn á morgun," segir Maggi.
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍBV | 22 | 11 | 6 | 5 | 50 - 27 | +23 | 39 |
2. Keflavík | 22 | 10 | 8 | 4 | 37 - 24 | +13 | 38 |
3. Fjölnir | 22 | 10 | 7 | 5 | 34 - 28 | +6 | 37 |
4. Afturelding | 22 | 11 | 3 | 8 | 39 - 36 | +3 | 36 |
5. ÍR | 22 | 9 | 8 | 5 | 30 - 28 | +2 | 35 |
6. Njarðvík | 22 | 8 | 9 | 5 | 34 - 29 | +5 | 33 |
7. Þróttur R. | 22 | 8 | 6 | 8 | 37 - 31 | +6 | 30 |
8. Leiknir R. | 22 | 8 | 4 | 10 | 33 - 34 | -1 | 28 |
9. Grindavík | 22 | 6 | 8 | 8 | 40 - 46 | -6 | 26 |
10. Þór | 22 | 6 | 8 | 8 | 32 - 38 | -6 | 26 |
11. Grótta | 22 | 4 | 4 | 14 | 31 - 50 | -19 | 16 |
12. Dalvík/Reynir | 22 | 2 | 7 | 13 | 23 - 49 | -26 | 13 |
Athugasemdir