Hólmbert Aron Friðjónsson byrjaði af krafti hjá liði Preussen Munster í næst efstu deild í Þýskalandi.
Preussen Munster var 2-1 undir gegn Paderborn þegar hann kom inn á sem varamaður een það tók hann aðeins fimm mínútur að skora og jafna metin. Paderborn náði aftur forystunni en Preussen náði í stig með marki í uppbótatíma.
Liðið er með tvö stig eftir fimm umferðir.
Helmond er á toppnum í næst efstu deild í Hollandi eftir 3-2 sigur á De Graafschap í kvöld. Helgi Fróði Ingason byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma.
Þá var staðan 2-1 Hellmond í vil en hann lagði upp þriðja markið aðeins þremur mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Sævar Atli Magnússon var tekinn af velli í seinni hálfleik þegar Lyngby tapaði 2-1 gegn Álaborg í dönsku deildinni. Nóel Atli Arnórsson var ekki með Álaborg vegna meiðsla. Álaborg er í 8. sæti með 9 stig eftir átta umferðir. Lyngby er með fimm stig í 10. sæti.
Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson spiluðu í 3-0 tapi HamKam gegn toppliði Bodö/Glimt í norsku deildinni. HamKam er í 9. sæti með 25 stig eftir 22 umferðir.
Hákon Arnar Haraldsson var ekki með Lille vegna meiðsla í 1-0 tapi gegn Saint-Etienne í frönsku deildinni. Lille er með 6 stig eftir fjórar umferðir í 7. sæti. Þá er Þorri Mar Þórisson leikmaður Öster í Svíþjóð einnig fjarverandi vegna meiðsla en hans menn gerðu markalaust jafntefli gegn Landskrona í næst efstu deild. Öster er í 4. sæti með 35 stig eftir 22 umferðir.