Við teljum niður í Pepsi-deildina með því að kynna liðin til leiks eftir því hvar þeim er spáð. Við veltum fyrir okkur líklegum byrjunarliðum í upphafi móts. Víkingi Ólafsvík spáð ellefta sætinu í sumar.
Spænski markvörðurinn Cristian Martinez Liberato stendur á milli stanganna en hann var öflugur í 1. deildinni í fyrra. Gamla kempan Einar Hjörleifsson mun berjast við hann um stöðuna en Einar tók fram hanskana í vetur eftir að hafa síðast spilað með Víkingi í Pepsi-deildinni árið 2013.
Emir Dokara verður hægri bakvörður líkt og undanfarin ár og hinn sænski Pontus Noredenberg verður vinstra megin. Hann þarf að fylla stórt skarð sem Guðmundur Reynir Gunnarsson skilur eftir sig en hann var valinn leikmaður ársins í 1. deildinni. Admir Kubat var frábær í hjarta varnarinnar í fyrra en hann sleit krossband í Lengjubikarnum og verður ekki með í sumar. Því er stórt spurningamerki hver verður með Tomasz Luba í hjarta varnarinnar. Ólafsvíkingar eru að leita að miðverði en ef enginn slíkur verður kominn í byrjun móts má búast við því að Björn Pálsson fari af miðjunni í hjarta varnarinnar.
Egill Jónsson og Kenan Turudija byrja á miðjunni og fyrir framan þá má búast við að Þorsteinn Már Ragnarsson byrji. Þorsteinn Már getur spilað allar fremstu stöðurnar en hann byrjar líklega framarlega á miðjunni. Björn Pálsson gæti líka spilað á miðjunni ef nýr miðvörður kemur fyrir mót. Kenan gæti þá farið framarlega á miðjuna og Þorsteinn í fremstu víglínu.
Mesta samkeppnin um stöður er á köntunum og í fremstu víglínu. Alfreð Már Hjaltalín og William Domínguez Da Silva voru í lykilhlutverki á köntunum í fyrra. Hrvoje Tokic skoraði síðan tólf mörk í átta leikjum síðari hluta móts sem er ótrúleg tölfræði. Líklegt er að Króatiinn byrji frammi. Pape Mamadou Faye og lánsmaðurinn Þórhallur Kári Knútsson úr Stjörnunni banka þó hressilega á dyrnar í baráttunni um sæti í fremstu stöðunum en þeir eru báðir nýkomnir til Ólafsvíkinga.
Athugasemdir