Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR var stoltur af sínu liði eftir að þeir gerði 3-3 jafntefli við Val í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 3 - 3 Valur
„Þessi leikur henti í okkur helling af áskorunum sem menn tókust á við. Á einhvrjum tímapunkti þurftum við að fara í þriggja manna vörn vegna þess að við vorum ekki með neina varnarmenn, tveir af þeim hafa aldrei spilað hafsent. Mér fannst þetta það minnsta sem við áttum skilið. Mér fannst við vera betri fyrsta hálftímann, Valsararnir vissulega mjög sterkir síðasta korterið í fyrri hálfleik en mér fannst við vera miklu sterkari í seinni hálfleik. Ég er óhemju stoltur af liðinu, ég er auðvitað ekki síður stoltur af ungum mönnum sem komu inná, Sigga Breka og Alexander Rafn, sem koma inná og gera sig gildandi. Þeir eru ekki bara þarna með heldur eru þeir bara raunverulegir þáttakendur. Sigurður Breki spilar 90 mínútur og er frábær. Þetta er hluti af því sem KR snýst um í dag. Það er það, að KR er fyrir KR-inga , staður þar sem menn sem standa sig vel í yngri flokkunum og eru efnilegir að þeir fái að spila. Það skiptir í raun og veru engu máli hvað þeir eru gamlir, ef þeir eru nógu góðir þá eru þeir nógu gamlir. Ég gæti bara ekki verið hamingjusamari."
KR þarf að koma til baka í leiknum tvívegis eftir að hafa lent 2-1 undir og síðar 3-2 undir.
„Ég upplifi þetta þannig á hliðarlínunni að við misstum aldrei trúnna. Það skipti engu máli hvort staðan var 2-1 eða 3-2 fyrir þeim og þó það var lítið eftir þá upplifði ég það þannig að leikmenn höfðu fulla trú á því að þeir gætu farið fram og jafnað leikinn. Þannig ég er bara himinlifandi með þetta."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.