Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, er á lista hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping, en þetta kemur fram í Aftonbladet.
Sænski þjálfarinn Rikard Norling var látinn taka poka sinn fyrir þremur dögum eftir slakt gengi með liðið á þessu tímabili.
Úrslit voru einfaldlega ekki að skila sér og var því ákveðið að rifta samningnum við hann, en þrír þjálfarar eru á lista hjá Norrköping.
Aftonbladet hefur heimildir fyrir því að Óskar Hrafn sé á lista Norrköping ásamt tveimur öðrum þjálfurum. Þar er talað um magnaðan árangur Óskars með Blika, en hann var einnig á blaði hjá AGF áður en danska félagið ákvað að ráða Uwe Rösler.
Daniel Backström, þjálfari Sirius, er einnig á listanum ásamt Poya Asbaghi sem þjálfaði Barnsley í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð.
Norrköping er í 11. sæti sænsku deildarinnar með 16 stig.
Athugasemdir