Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 14. október 2024 16:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þetta eru orð Hareide sem Lárus Orri skaut á
Icelandair
Lárus Orri.
Lárus Orri.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Åge Hareide.
Åge Hareide.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lárus Orri Sigurðsson er sérfræðingur Stöð 2 Sport í kringum leiki íslenska landsliðsins. Lárus er fyrrum landsliðsmaður og eftir leikinn gegn Wales á föstudag minntist hann á ummæli landsliðsþjálfarans Age Hareide í hlaðvarpsþætti hér á Fótbolti.net.

Hareide var til viðtals hjá Jóni Páli Pálmasyni í Tveggja Turna Tali í síðustu viku. Viðtalið var tekið fyrir leik Íslands gegn Wales.

Jón Páll spurði hvort það væru aðrar væntingar frá sambandinu og stuðningsmönnum hér heldur en í Noregi og Danmörku þar sem hann hefur líka verið landsliðsþjálfari.

„Já, það er öðruvísi. Í Danmörku væri sagt að Wales væri lið sem við myndum vinna. Í Noregi væri örugglega sagt það sama, en ég er ekki viss um að það myndi raungerast. Pressan er öðruvísi, hún er ekki eins hér á Íslandi," sagði Hareide sem fór svo að tala um fjölda áhorfenda á leikjum Íslands. „Við ættum að vera með fleira fólk á vellinum, í leik í Þjóðadeildinni gegn Wales. Ég get skilið að það er kalt og allt, en það eru þúsund manns frá Wales að koma og það eru 4000 frá Íslandi. Við ættum að vera með fleira fólk á vellinum, völlurinn ætti að vera fullur alltaf þegar við spilum. Leikmennirnir myndu kunna mjög að meta það. Fólkið sem kemur styður okkur vel og við erum ánægðir með það, en við verðum að reyna fylla völlinn. Það er undir okkur komið að sýna að við getum spilað fótbolta og unnið leiki. Vonandi kemur þá meira fólk," sagði norski þjálfarinn.

Lárus hjó í ummæli Hareide um pressuna, að hún væri ekki eins hér á Íslandi.

„Landsliðsþjálfarinn var í viðtali á Fótbolti.net og talar um það í miðju viðtalinu að það er ekki sama pressa hér og í Danmörku til dæmis. Þetta er bara bull. Við viljum úrslit, þetta er ekki nógu gott. Við eigum að vinna þenann leik núna (gegn Wales). Við sýndum það í seinni hálfleik að við getum unnið þetta og það þýðir ekki að koma svona til leiks eins og við gerðum í fyrri hálfleik. Ef þjálfarinn heldur að það sé ekki pressa hérna, það er bara kjaftæði, þá á hann bara að eyða meiri tíma hérna, þá finnur hann að það er pressa," sagði Lárus á Stöð 2 Sport eftir leikinn. Lárus er m.a. ekki hrifinn af því að landsliðsþjálfarinn haldi fjarfundi þegar landsliðshópar eru tilkynntir.

Alls var 6141 áhorfandi á leiknum á föstudag og það verða allavega rúmlega 5000 manns í stúkunni í kvöld þegar Tyrkir mæta í heimsókn. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18:45.
Útvarpsþátturinn - Landsliðshetjur og Toddi
Athugasemdir
banner
banner
banner