Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 15. mars 2023 09:34
Elvar Geir Magnússon
Rifti samningnum nokkrum vikum fyrir leik gegn Íslandi
Icelandair
Martin Stocklasa sagði upp hjá Liechtenstein.
Martin Stocklasa sagði upp hjá Liechtenstein.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liechtenstein verður með bráðabirgðastjóra gegn Íslandi í undankeppni EM sunnudaginn 26. mars. Martin Stocklasa sem hafði verið landsliðsþjálfari Liechtenstein frá 2020 rifti samningi sínum í byrjun þessa mánaðar.

Hann sagði upp til að taka við félagsliðinu Vaduz í Liechtenstein en það tekur þátt í svissnesku deildakeppninni og er í níunda sæti B-deildarinnar. Það er ekki deild í Liechtenstein en sjö lið frá landinu spila í svissnesku deildakeppninni.

Stocklasa var fyrsti þjálfarinn sem er frá Liechtenstein sem stýrði landsliði þjóðarinnar

Austurríkismaðurinn Rene Pauritsch, sem er yfirmaður fótboltamála hjá Liechtenstein, hefur tekið við landsliðinu til bráðabirgða og mun stýra í leikjunum sem framundan eru. Liechtenstein mætir Portúgal í komandi gluga áður en kemur að leiknum gegn Íslandi.

Liechtenstein er eitt lélegasta landslið heims, það situr í 198. sæti á styrkleikalista FIFA og hefur gengið í gegnum 24 leiki án þess að vinna sigur. Ísland vann Liechtenstein 4-1 og 4-0 fyrir tveimur árum þegar liðin voru saman í riðli í undankeppni HM.

Landsliðshópur Liechtenstein fyrir komandi leiki var opinberaður í gær og má skoða hann hér.

Þrettán leikmenn í hópnum spila með félagsliðum frá Liechtenstein en níu með liðum í Austurríki og Sviss. Sá sem sker sig úr er Dennis Salanovic, vængmaður CF Talavera í spænsku C-deildinni. Landsleikjahæstur í hópnum er bakvörðurinn Seyhan Yildiz sem hefur leikið 60 landsleiki en hann spilar fyrir Eschen/Mauren.

Áður en Ísland mætir Liechtenstein munu strákarnir okkar leika gegn Bosníu en sá leikur verður á fimmtudaginn í næstu viku.
Athugasemdir
banner
banner