Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   fim 15. september 2022 09:23
Elvar Geir Magnússon
Heimir tekur Gumma Hreiðars, Helga Kolviðs og Boxleitner með til Jamaíku
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson.
Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson er í Jamaíku og verður tilkynntur sem nýr landsliðsþjálfari á fréttamannafundi á morgun.

Samkvæmt fjölmiðlum í landinu mun Heimir taka með sér þrjá aðstoðarmenn sem allir störfuðu með honum hjá íslenska landsliðinu.

Þar er um að ræða aðstoðarþjálfarann Helga Kolviðsson, markvarðaþjálfarann Guðmund Hreiðarsson og styrktarþjálfarann Sebastien Boxleitner samkvæmt iriefm.net.

Heimir er vinsælasti þjálfari Íslands eftir frábæran árangur með íslenska landsliðið. Hann hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann yfirgaf Al Arabi í Katar en hefur í sumar verið ráðgjafi hjá félagi sínu ÍBV í Vestmannaeyjum.

Jamaíka mætir Argentínu í vináttulandsleik í Bandaríkjunum 27. september og verður það væntanlega fyrsti leikur Heimis. Michail Antonio, sóknarmaður West Ham, og Leon Bailey hjá Aston Villa eru meðal leikmanna í hópnum fyrir þann leik.

Jamaíka er eyríki í Karíbahafi og landslið þess er í 62. sæti á styrkleikalista FIFA, einu sæti ofar en íslenska landsliðið.

Sjá einnig:
Heimir virðist þurfa að slökkva elda hjá jamaíska landsliðinu
Athugasemdir
banner