Víkingarnir Stígur Diljan Þórðarson og Gylfi Þór Sigurðsson fóru af velli í stórsigrunum gegn KR í gær. Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, var spurður út í stöðuna á þeim í viðtali eftir leikinn. Hann var líka spurður út í reynsluboltann Pablo Punyed sem var ekki með í gær.
Lestu um leikinn: KR 0 - 7 Víkingur R.
„Stígur og Gylfi fengu smá hnjask í leiknum í dag, ekki neitt alvarlegt held ég, við vorum bara í þannig stöðu að geta skipt þeim út af. Við erum með rosalega stóran og breiðan hóp, sérð það, Pablo er heill og hann er utan hóps. Það sýnir bara styrkleika hópsins okkar."
„Þeir sem komu inn á í dag komu virkilega sterkir inn, þeir eru liðsmenn, þetta er ein stór liðsheild hjá okkur. Menn eru fúlir að vera á bekknum eins og þeir eiga að vera, en þeir eru tilbúnir að hjálpa liðinu þegar þeirra krafta er vænst," sagði Sölvi.
Haraldur Ágúst Brynjarsson, sem fæddur er 2007, var einn af varamönnum Víkings í gær og hann lék sínar fyrstu keppnismínútur með meistaraflokki eftir að hann kom inn á fyrir Daníel Hafsteinsson á 83. mínútu leiksins.
Pablo er 35 ára miðjumaður sem sleit krossband í hné í fyrra. Hann sneri aftur á völlinn í júlí en leikurinn í gær var annar leikurinn í röð þar sem hann er ekki í leikmannahópi Víkings. Samningur hans við Víking rennur út í lok árs.
Athugasemdir