sun 16. janúar 2022 22:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Dagný lagði upp dramatískt jöfnunarmark í nágrannaslag
Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir lagði upp jöfnunarmark West Ham í uppbótartíma þegar liðið mætti Tottenham í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham fékk vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik og tók forystuna. Stuttu eftir það missti West Ham leikmann af velli með rautt spjald. Útlitið ekki gott, en þær gáfust ekki upp. Á 92. mínútu jafnaði Kate Longhurst metin eftir undirbúning frá Dagnýju.

Frábært stig fyrir West Ham úr því sem komið var. Dagný og hennar stöllur eru í áttunda sæti og Tottenham situr í fjórða sæti.

Einn Íslendingur í Íslendingaslag
Í þýsku B-deildinni skildu Schalke 04 og Holstein Kiel jöfn í Íslendingaslag. Það tók einn Íslendingur þátt í leiknum; Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn fyrir Schalke. Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Kiel í leiknum.

Schalke er í sjötta sæti deildarinnar og Holstein Kiel er núna í 13. sætinu.

Þórir Jóhann, Albert og María komu inn á
Í ítölsku B-deildinni kom Þórir Jóhann Helgason inn á sem varamaður vann 0-1 sigur gegn Pordenone. Hann kom inn á þegar sjö mínútur voru eftir af 90 mínútunum og hjálpaði hann sínu liði að landa sigrinum. Lecce er í fimmta sæti.

Mikael Egill Ellertsson var ekki í hóp hjá Spal gegn Benevento, í 1-1 jafntefli. Spal er í 15. sæti og hefur ekki gengið vel hjá liðinu á þessari leiktíð.

Í Holland kom Albert Guðmundsson inn á sem varamaður á 80. mínútu 1-2 sigri AZ Alkmaar gegn Fortuna Sittard. Albert mun yfirgefa AZ eftir tímabilið. Liðið er núna í fimmta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.

Í Skotlandi kom María Catharina Gros Ólafsdóttir inn af bekknum hjá Celtic á 76. mínútu er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Hibernian. Jöfnunarmark Hibernian kom í uppbótartímanum. Celtic er í þriðja sæti í Skotlandi.

Anna Björk og Ögmundur komu ekki við sögu
Anna Björk Kristjánsdóttir var ónotaður varamaður hjá Inter í 1-1 jafntefli gegn Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni. Inter er í fimmta sæti deildarinnar.

Ögmundur Kristinsson er varamarkvörður Olympiakos í Grikklandi og hann var á bekknum í markalausu jafntefli gegn Panathinaikos í dag. Olympiakos er á toppi grísku úrvalsdeildarinnar með þægilegt níu stiga forskot.
Athugasemdir
banner
banner