Albert Guðmundsson hefur átt stórkostlegt tímabil með Genoa á Ítalíu og hefur hann verið einn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar þar í landi síðastliðið ár.
Mikill áhugi er á Alberti en ítalski fréttamaðurinn Gianluca Di Marzio sagði frá því í morgun að Inter, Roma og Juventus, sem eru öll á meðal stærstu félaga Ítalíu, séu að reyna að Íslendinginn í sínar raðir.
Guðmundur Benediktsson, faðir Alberts, var gestur í hlaðvarpinu Enski boltinn í morgun og þar var hann spurður út í son sinn og áhuga annarra félaga á honum.
„Það er gaman þegar það gengur vel. Þá ertu orðaður við hitt og þetta, þegar þú ert að spila vel. Ég held og trúi því að það besta sem gerist núna er að halda dampi og klára tímabilið með Genoa. Það er held ég það eina sem kemst að hjá Alberti. Þetta snýst um að halda áfram að standa sig vel og þá geta hlutir gerst," sagði Gummi.
„Hann er búinn að vera einn af bestu leikmönnunum - samkvæmt allri tölfræði - í Serie A í þessum fyrri hluta og vonandi heldur það bara áfram."
„Hann er klárlega orðinn þroskaðri leikmaður og svo er hann með þjálfara í Gilardino sem gefur honum greinilega gríðarlegt sjálfstraust. Hann treystir mikið á Albert og gefur honum mjög mikið frjálsræði. Eins og ég skil þetta, þá fær Albert að spila eins og Gilardino langaði að spila sjálfur. Þegar þú færð svona traust frá þjálfaranum, þá hlýtur það að hjálpa."
Gummi segir að það sé draumur að sjá Albert spila vel. „Ef þér líður vel inn á vellinum, þá gerast góðir hlutir."
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Athugasemdir