Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 16. júní 2022 21:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: Vinur Lewandowski jafnaði - Fjörugir leikir
Maciej Makuszewski og Mikkel Dahl, leikmenn Leiknis.
Maciej Makuszewski og Mikkel Dahl, leikmenn Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það gengur erfiðlega hjá FH.
Það gengur erfiðlega hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Árni gerði laglegt mark.
Jóhann Árni gerði laglegt mark.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru tveir leikir að klárast í Bestu deild karla núna fyrir stuttu. FH og Leiknir, tvö lið sem hafa átt mjög erfitt sumar til þessa, áttust við í Kaplakrika.

Þar byrjuðu heimamenn ekki vel því Leiknir tók forystuna eftir aðeins þriggja mínútna leik. Mikkel Jakobsen reyndi fyrirgjöf sem fór beinustu leið í höndina á Loga Hrafni Róbertssyni og vítaspyrna dæmd. Emil Berger fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Engin draumabyrjun fyrir FH-inga og þarna héldu kannski einhverjir að FH myndi bara halda áfram að gera það sem þeir voru að gera fyrir landsleikjahlé; að tapa.

En annað kom á daginn. FH-ingar voru fljótir að snúa leiknum sér í vil. Baldur Logi Guðlaugsson jafnaði á sjöttu mínútu og stundarfjórðungi síðar kom Kristinn Freyr Sigurðsson þeim yfir með virkilega góðu skoti.

FH var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náði ekki að bæta við. Í seinni hálfleik lögðust heimamenn aftar og voru staðráðnir í því að sigla sigrinum heim. Það virtist ætla að takast, en Leiknismenn gáfust ekki upp og þeir jöfnuðu metin í uppbótartímanum. Fyrrum pólski landsliðsmaðurinn Maciej Makuszewski kom boltanum í netið og jafnaði metin.

Lokatölur 2-2 og er FH áfram í níunda sæti með átta stig. Þeir töpuðu ekki núna, en það hljóta að vera meiri kröfur gerðar í Hafnarfirðinum en þetta. Leiknir er í ellefta sæti með fjögur stig, en liðið hefur ekki enn unnið leik.

Sömu tölur suður með sjó
Í Keflavík voru sömu lokatölur þar sem heimamenn tóku á móti Stjörnunni. Bæði þessi lið hafa verið að leika vel að undanförnu.

Keflavík byrjaði vel, en það voru Stjörnumenn sem tóku forystuna er Jóhann Árni Gunnarsson skoraði á 27. mínútu. „Ég hugsa að þetta hafi verið fyrsta skot Stjörnumanna á rammann og það var líka obbosins skot á markið!!” skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í beinni textalýsingu frá leiknum.

Forystan lifði ekki lengi því Adam Ægir Pálsson jafnaði metin með frábæru marki átta mínútum síðar. En fyrir hálfleik gerðist þetta:

„STJÖRNUMENN KOMAST AFTUR YFIR!”

„Virkaði eins og misheppnuð sending inn fyrir sem varnarmenn Keflavíkur létu fara en Ísak Andri lét reyna á þetta og elti boltann uppi. Sindri Kristinn virtist vera alveg með þetta út við endalínu í markteig en missir boltann frá sér og Ísak Andri nær boltanum af honum og hleypur að auðu markinu og skorar.”

Klaufalegt hjá Keflvíkingum og Stjarnan leiddi í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleik skiptust liðin á að sækja á hvort annað, en á 68. mínútu jafnaði Keflavík aftur og í það skiptið var það Dani Hatakka sem skoraði.

Þetta var virkilega skemmtilegur leikur þar sem bæði lið hefðu getað tekið stigin þrjú, en jafntefli niðurstaðan. Keflavík er í sjöunda sæti með ellefu stig og er Stjarnan í þriðja sæti með 18 stig.

Keflavík 2 - 2 Stjarnan
0-1 Jóhann Árni Gunnarsson ('27 )
1-1 Adam Ægir Pálsson ('35 )
1-2 Ísak Andri Sigurgeirsson ('40 )
2-2 Dani Hatakka ('68 )
Rautt spjald: Ivan Kaliuzhnyi, Keflavík ('89)
Lestu um leikinn

FH 2 - 2 Leiknir R.
0-1 Henrik Emil Hahne Berger ('3 , víti)
1-1 Baldur Logi Guðlaugsson ('6 )
2-1 Kristinn Freyr Sigurðsson ('21 )
2-2 Maciej Makuszewski ('90 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner