Árni Salvar Heimisson, leikmaður ÍA, var tilfinningaríkur eftir að hann varð Lengjudeildarmeistari með liðinu á Akranesi í dag.
Lestu um leikinn: ÍA 4 - 1 Grótta
Árni, sem er tvítugur, spilaði tólf leiki með Skagamönnum í sumar og vann sig inn í liðið á miðju tímabili og hefur verið fastamaður síðan en hann uppskar laun erfiðisins í dag með titli.
„Þetta er fáránlegt. Þetta er stærsti leikur sem ég hef spilað og aldrei upplifað að vinna svona titil áður. Besta tilfinning sem ég hef einhvern tímann fundið.“
„Þetta er erfiðasta brekka sem ég hef farið í. Brotnaði einu sinni á fætinum hægra megin og einu sinni vinstra megin. Fór í gegnum enn eitt erfiða tímabilið, byrjuðum lélega en unnum okkur hægt og rólega unnum okkur inn í þetta. Að fá að klára þetta með þessu frábæra liði er bara fáránlegt og hefði aldrei getað dreymt um þetta,“ sagði Árni við Fótbolta.net.
Það var mikil stemning í klefanum á Akranesi og heyrði það vel í viðtalinu en Skagamenn leyfa sér að fagna vel og innilega í kvöld en liðið mun spila í Bestu deild að ári.
„Þetta er bara stemning. Við elskum allir hvorn annan, elskum Akranes og ógeðslega góð stemning og geggjað að vera partur af þessu.“
„Þetta skiptir öllu máli, fyrir samfélagið og allir munu tala um þetta á morgun, hinn og eftir tvö ár. Þetta er langbest fyrir alla og vinna í þessari treyju er bara geggjað,“ sagði Árni Salvar í lokin.
Athugasemdir