Fimm stór félög að eltast við Semenyo - Man Utd í viðræðum um nítján ára miðjumann - Arsenal hefur áhuga á leikmanni AC Milan
   mið 17. desember 2025 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tók árlega fundinn með Gísla Gunnari - „Bjóst ekki við að eiga það á ferilskránni"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Steinþór Már Auðunsson, Stubbur, hefur undanfarin ár verið aðalmarkvörður KA. Hann var samningslaus í haust og var orðaður við Magna á Grenivík, félagið sem hann spilaði með áður en hann fór í KA.

Hann skrifaði undir fyrr í mánuðinum og tekur sitt sjötta tímabil í röð á Brekkunni.

„Það voru alveg pælingar að fara í Magna og ég átti minn árlega fund með Gísla Gunnari hjá Magna (formaður og framkvæmdastjóri) og við ræddum málin vel og vandlega, en svo var niðurstaðan sú að ég ákvað að vera eitt ár í viðbót hjá KA."

„Nei nei, það tók ekki langan tíma þannig séð, tilboðið (frá KA) kom sama dag og ég flaug út í frí með konu og barni og ég hafði takmarkaðan áhuga á því að vera spá í þessu meðan ég var í fríi. Eftir að ég kom heim þá tók þetta ekki langan tíma,"
segir Stubbur.

Hann varði mark KA í 16 leikjum í sumar en meiðsli komu í veg fyrir að leikirnir yrðu fleiri. Hvernig var tímabilið 2025?

„Tímabilið var eins og í fyrra, byrjum ekki nógu vel en endum það vel, þó svo að við hefðum viljað ná að troða okkur í efri hlutann."

„Ég var í basli fram að meiðslunum en eftir meiðsli fannst mér bæði ég og liðið spila nokkuð vel."

„Það kom rifa í liðþófa í upphitun á móti Aftureldingu og það var metið þannig að það væri best að fara í aðgerð og svo á móti KR í úrslitakeppninni heldur sjúkraþjálfarinn að hnéskelin hafi eitthvað hreyfst til og rifið einhverjar sinar eða bandvef í kringum hnéð. Þetta hefur svo ekkert angrað mig hingað til eftir að við byrjuðum að æfa aftur."


Stubbur, sem er 35 ára, spilaði sinn fyrsta Evrópuleik árið 2023 og bætti tveimur við í sumar þegar KA mætti Silkeborg í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Hvernig var að spila þessa Evrópuleiki í sumar?

„Það var virkilega gaman að spila þessa leiki. Það var leiðinlegt að fá á sig þetta mark seint í seinni leiknum og ná ekki að fara með leikinn í vítaspyrnukeppni og vinna þá þar."

Ef þú horfir til baka, hefði þig órað fyrir það að eiga þrjá Evrópuleiki á ferlinum?

„Nei, ég get nú ekki sagt það að ég hefði búist við því að eiga þrjá Evrópuleiki á ferilskránni miðað við að fyrir tíu árum var ég að spila í sjö manna utandeildinni hérna fyrir norðan," segir Stubbur.
Athugasemdir
banner