
Andri Lucas tengdi vel við Orra Stein í leikjunum síðasta haust. Han þarf hins vegar, miðað við þessa uppstillingu, að gera sér það að góðu að byrja á bekknum.
Á fimmtudag heimsækir íslenska landsliðið Kósovó og mætir þar heimamönnum í fyrri leik liðanna í umspilinu í Þjóðadeildinni. Leikurinn fer fram í höfuðborginni Pristina en í einvíginu er spilað um sæti í B-deild næstu Þjóðadeildar. Leikurinn hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma.
Fótbolti.net fylgir landsliðinu og eru þeir Elvar Geir Magnússon og Hafliði Breiðfjörð staddir á Spáni þar sem liðið undirbýr sig fyrir fyrsta leikinn undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar.
Fótbolti.net fylgir landsliðinu og eru þeir Elvar Geir Magnússon og Hafliði Breiðfjörð staddir á Spáni þar sem liðið undirbýr sig fyrir fyrsta leikinn undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar.
En hvernig verður byrjunarliðið? Það er alltaf skemmtilegur samkvæmisleikur að reyna rýna í stöðu manna og sjá hvernig hlutirnir gætu orðið.
Við púsluðum saman líklegu byrjunarliði og miðum við leikkerfið 4-3-3 í grunninn .
Arnar gaf það út fyrir verkefnið að Hákon Rafn Valdimarsson yrði markmaður númer eitt í þessum leikjum og Hákoni er því í markinu í líklegu byrjunarliði. Logi Tómasson er eini náttúrulegi vinstri bakvörðurinn í hópnum og Arnar þekkir Loga betur en flestir, Logi er því í líklegu byrjunarliði. Sverrir Ingi Ingason verður í miðverðinum en spurningin er hvort Aron Einar Gunnarsson eða Guðlaugur Victor Pálsson verði með Sverri . Við veðjum á hungraðan Aron Einar. Valgeir Lunddal Friðriksson var ekki í leikmannahópi Fortuna Düsseldorf í síðustu tveimur leikjum liðsins í Þýskalandi en er í líklegu byrjunarliði okkar. Guðlaugur Victor og Bjarki Steinn Bjarkason koma einnig til greina í þá stöðu.
Á miðjunni verður Stefán Teitur Þórðarson sem er í stóru hlutverki hjá Preston og lék vel í Þjóðadeildinni, mikill kraftur og hlaupageta í honum. Það er svolítið síðan að Willum Þór WIllumsson sýndi hversu öflugur hann getur verið með landsliðinu en hann hefur verið mjög góður með Birmingham á tímabilinu og við veðjum á að hans gæði og 'físík' verði fyrir valinu. Við teiknum þetta svo upp sem baráttu milli Arnórs Ingva Traustasonar og Ísaks Bergmanns Jóhannessonar um síðasta „lausa sætið" í byrjunarliðinu og veðjum við á reynslu Arnór Ingva.
Fremstu þrír verða svo töframennirnir Albert Guðmundsson, Hákon Arnar Haraldsson og fyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson.

Athugasemdir