Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði gullfallegt mark í 1-1 jafntefli Fortuna Düsseldorf gegn Elverberg í þýsku B-deildinni í dag.
Skagamaðurinn var eins og venjulega í byrjunarliði Fortuna, en hann gerði mark sitt á 73. mínútu.
Sendingin kom frá vinstri en var slök og náði varnarmaður Elverberg að taka á móti boltanum. Ísak var hins vegar ákafur í pressunni, stal boltanum og þrumaði honum síðan úr þröngu færi í skeytin nær.
Sjáðu geggjað mark Ísaks hér
Þetta var 10. deildarmark hans á tímabilinu en þar að auki er hann með 6 stoðsendingar.
Ísak hefur eflaust verið svekktur að þetta hafi ekki reynst sigurmarkið en sjö mínútum síðar skoraði Elverberg jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu.
Sigur hefði komið Fortuna upp fyrir Elverberg og í 3. sætið, en jöfnunarmarkið skemmdi fyrir og er liðið því í 5. sæti með 48 stig, eins og Elverberg og Paderborn, en með slakari markatölu þegar fjórar umferðir eru eftir.
Valgeir Lunddal Friðriksson byrjaði á bekknum hjá Fortuna en kom inn á þegar lítið var eftir af leiknum.
Athugasemdir