Wolves hefur formlega bjargað sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni eftir ótrúlega fimm leikja sigurhrinu en sæti þeirra í deildinni var staðfest með 1-0 sigri liðsins á Manchester United á Old Trafford í dag.
Ekki er langt síðan að Wolves var á leið niður um deild. Leikmenn voru að rífast inni á vellinum og allt á suðupunkti.
Gary O'Neil var rekinn í desember eftir arfaslakan árangur og kom Vitor Pereira inn.
Það tók Portúgalann örlítinn tíma til að koma öllu í rétt horf og nú þegar fimm leikir eru eftir er liðið búið að bjarga sér frá falli.
Pablo Sarabia var hetja Wolves í dag er hann skoraði glæsilegt aukaspyrnumark á síðasta stundarfjórðungi leiksins, en hann segist ánægður með frammistöðu liðsins og er þá sérstaklega ánægður með komu Vitor Pereira.
„Þetta er risastór sigur. Ég er ótrúlega ánægður með sjálfan mig og bara okkur fyrir að hafa unnið þennan leik.“
„Við berjumst í hverjum einasta leik. Við reynum að gera okkar besta og erum að bæta okkur heilmikið. Þetta hefur verið mjög erfitt tímabil, en núna ætlum við að njóta.“
„Ég held að liðið hafi þurft á breytingu að halda. Það breyttist eitthvað með komu Vitor. Mikilvægasta er að leikmennirnir séu ánægðir á vellinum því þannig er mögulegt fyrir okkur að gera okkar besta,“ sagði Sarabia.
Athugasemdir