Bosníski miðjumaðurinn Miralem Pjanic er búinn að tilkynna það að hann er hættur í fótbolta.
Skórnir hans Pjanic eru komnir á hilluna en hann er 35 ára gamall og ætlar að einbeita sér að föðurhlutverkinu.
Pjanic lék síðast fyrir CSKA Moskvu í Rússlandi en þar áður var hann meðal annars á mála hjá Barcelona, Juventus og Roma.
„Ég er hættur sem atvinnumaður í fótbolta. Ég bý í Dúbaí og einbeiti mér að föðurhlutverkinu. Litli sonur minn er í forgangi," sagði Pjanic meðal annars.
Pjanic vann Serie A deildina á Ítalíu fjórum sinnum, ítalska bikarinn tvisvar og ofurbikarinn einu sinni. Auk þess vann hann spænska konungsbikarinn með Barcelona og tyrkneska ofurbikarinn með Besiktas. Hann vann einnig titla með Sharjah FC í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og CSKA.
Hann var valinn í lið ársins í Serie A fjórum sinnum og var einnig í liði ársins í Meistaradeild Evrópu 2016-17.
Pjanic hefur einu sinni verið valinn fótboltamaður ársins í Bosníu, enda háði hann oft baráttu við Edin Dzeko um verðlaunin, og einu sinni sem íþróttamaður ársins í Bosníu.
Hann lék 115 leiki fyrir A-landslið Bosníu eftir að hafa spilað fyrir yngri landslið Lúxemborgar.
Athugasemdir


