Enska úrvalsdeildarfélagið Fulham er í viðræðum við Hollandsmeistara PSV Eindhoven um kaup á framherjanum Ricardo Pepi.
Pepi er 22 ára gamall og er búinn að skora 10 mörk í 21 leik í öllum keppnum, auk þess að gefa 2 stoðsendingar.
Pepi er bandarískur landsliðsmaður og hefur einnig leikið fyrir Augsburg í þýska boltanum, auk North Texas og FC Dallas í Bandaríkjunum og FC Groningen í Hollandi.
Sky Sports er meðal fjölmiðla sem greina frá þessu og segir að PSV sé þegar búið að hafna einu tilboði frá Fulham.
Fulham sárvantar framherja eftir að Rodrigo Muniz varð fyrir slæmum meiðslum, en hinn 34 ára gamli Raúl Jiménez hefur verið að leiða sóknarlínuna í fjarveru Muniz.
Fulham er einnig á höttunum eftir nýjum kantmanni og miðjumanni í janúarglugganum eftir misheppnað sumar á leikmannamarkaðinum.
Ýmsir fjölmiðlar tala um að PSV sé ekki reiðubúið til að selja Pepi fyrir minna en 40 milljónir. Hann er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2030.
Athugasemdir

