'Ég var sjálfur atvinnumaður í fótbolta í 17 ár og hef þá reynslu í farteskinu af hafa þjálfað og lært af sigursælasta þjálfara Íslands'
'Mér fannst þetta strax spennandi tækifæri og mikill heiður að hann sæi mig fyrir sér sem þann liðsauka sem hann vantaði'
Kjartan Henry Finnbogason hefur tekið stefnubreytingu á sínum fótboltaferli. Eftir tvo áratugi sem leikmaður í meistaraflokki þar sem hann lék lengi vel erlendis, og svo tvö tímabil sem aðstoðarþjálfari, hefur Kjartan ákveðið að fara út í umboðsmennsku.
Hann mun vinna með Ólafi Garðarssyni, reynslumesta umboðsmanni Íslands, en hann hefur verið með FIFA réttindin í 28 ár.
Hann mun vinna með Ólafi Garðarssyni, reynslumesta umboðsmanni Íslands, en hann hefur verið með FIFA réttindin í 28 ár.
Kemur með reynslu sem fyrrum atvinnumaður í fótbolta
„Óli hafði samband við mig fyrir örugglega rúmum tveimur árum síðan og viðraði þá þessa hugmynd. Hann er að sinna mörgum leikmönnum og vill geta gert það 100% og sagðist því vera farinn að huga að því að fá einhvern með sér í þetta, bæði til þess að geta þjónustað sína leikmenn sem allra best og til að geta bætt í. Mér fannst þetta strax spennandi tækifæri og mikill heiður að hann sæi mig fyrir sér sem þann liðsauka sem hann vantaði."
„Ég ákvað þó á þessum tíma að mín næstu skref, eftir að hafa lagt skóna á hilluna, væri að fara út í þjálfun. Mér fannst það rökrétt ákvörðun og mat það sem nauðsynlegan lærdóm áður en ég færi út í umboðsmennsku. Sem þjálfari upplifir maður nefnilega aðra hlið á fótboltanum sem mun gagnast mér í þessu nýja hlutverki. Að hafa bæði verið leikmaður og þjálfari gerir það að verkum að maður skilur aðeins betur hugarheim þjálfarans og þjáningar leikmannsins þegar honum finnst þjálfarinn vera á villigötum. Ég tók B- og A þjálfararéttindin samhliða þjálfun og þjálfaði með Heimi (Guðjónssyni) í tvö ár og lærði heilan helling af því. Svo þegar það tók endi nú í sumar þá tókum við Óli aftur upp þráðinn af alvöru og svo gengum við frá þessu núna milli jóla og nýárs þar sem ég keypti helmingshlut."
„Óli tók réttindin til að vera umboðsmaður knattspyrnumanna árið ´97, fyrstu manna hérlendis. Hann er umboðsmaður númer 001 hjá KSÍ og er búinn að vera í þessu af fullum krafti í 28 ár. Hann býr yfir gríðarlegri reynslu og það eru í raun algjör forréttindi fyrir mig að fá að læra af manni eins og Óla. Ég hef auðvitað þekkt Óla frá því að ég hóf minn atvinnumannaferil 16 ára gamall og hef alltaf borið ómælda virðingu fyrir honum, enda einn heiðarlegasti náungi sem ég hef kynnst. Það er orðspor sem ekki allir umboðsmenn hafa. Óli er auðvitað líka lögmaður og þaulvanur samningamaður og ekki skemmir fyrir að konan mín er það einnig. Þau ættu því í sameiningu að geta leyst þann hluta starfsins."
„Ég tel mig hins vegar koma með annað að borðinu. Ekki síður mikilvægt. Ég var sjálfur atvinnumaður í fótbolta í 17 ár og hef þá reynslu í farteskinu af hafa þjálfað og lært af sigursælasta þjálfara Íslands. Ég tel mig því koma með aðeins aðra hlið inn í þetta samstarf. Ég spilaði í Skotlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Ungverjalandi og er kannski aðeins meira „current". Ég er því viss um að við Óli séum mjög góð blanda."
„Starf umboðsmanns snýst auðvitað fyrst og fremst um það að þjónusta leikmennina. En sú þjónusta er margþætt og felur í sér miklu meira en bara það að finna lið og endurnýja samninga. Samband þessara aðila er orðið nánara á allan hátt og samband umboðsmanna við foreldra og forráðamenn leikmanna er líka miklu meira en áður tíðkaðist. Ég fór sjálfur út 2005 og það hefur mikið breyst frá þeim tíma. Það er hins vegar stutt síðan ég var hinum megin við borðið, þ.e. leikmaður sjálfur, þannig að ég ætti að geta tengt vel við leikmennina. Ég hef líka búið mér til mín sambönd erlendis hjá þeim klúbbum sem ég hef verið á mála hjá. Þegar maður er svona lengi í fótbolta þá kynnist maður rosalega mörgum aðilum í kringum boltann., Ég held t.d. að 70-80% af atvinnumönnum í fótbolta endi á því að vinna við eitthvað fótboltatengt. Maður er alltaf að sjá fyrrum liðsfélaga dúkka upp hér og þar í alls konar fótboltatengdum störfum."
Tel mig hafa mjög mikið að gefa
Ólafur aðstoði Kjartan og Theodór Elmar Bjarnason þegar þeir fóru út til Celtic fyrir tveimur áratugum síðan.
„Ég hef kynnst Óla vel í gegnum ferilinn. Það segir sig sjálft að hann er góður í þessu, verið þetta lengi í þessu. Hann byrjaði með Hemma Hreiðars og allar þessar gömlu kempur og er með gríðarleg mikil sambönd. Ég tel mig mjög heppinn að fá þetta tækifæri, enda voru margir aðrir sem höfðu áhuga á að fara inn í þetta með honum."
„En Óli er ekkert að hætta, síður en svo. Við erum búnir að tala mjög mikið saman að undanförnu, erum að þjónusta um 60 leikmenn og ætlum að bæta í. Við leggjum áherslu á að ná að sinna öllum 100% og Óli telur að mín aðkoma muni styðja við það. Ég er fullur tilhlökkunar."
„Ég fór ungur út á mínum ferli, var talinn mjög efnilegur og mér áttu að vera allir vegir færir. Svo gekk það ekki alveg upp, ég lenti í mjög alvarlegum meiðslum sem héldu mér frá í tvö ár, þurfti að koma heim úr atvinnumennsku, náði mér upp úr meiðslunum og kom mér svo aftur út. Ég tel mig hafa átt mjög fínan feril. Ég spilaði í fjögur ár í Danmörku, var hjá Ferencvaros, spilaði í forkeppni Meistaradeildarinnar og svo einhverja landsleiki. Ég tel mig því hafa mjög mikið af gefa. Ég gerði helling af mistökum sjálfur, lærði margt og mig langar til að hjálpa öðrum að gera ekki sömu mistök."
Ekki eitt rétt svar og allt getur gerst
Það er stóra spurningin, Kjartan Henry fór ungur út til Celtic. Mælir hann með því að strákar/stelpur fari út 16/17 ára eða bíði lengur?
„Það er voðalega erfitt að svara því, leikmenn eru svo mismunandi karakterar. Fyrir suma er það hárrétt að fara ungir út að árum en fyrir aðra er betra að taka minni skref í einu. Þetta er erfitt og þetta eru allt stórar ákvarðanir fyrir unga leikmenn að taka sem og foreldra og forráðamenn þeirra. Og þess vegna er líka svo mikilvægt að umboðsmenn séu góður stuðningur við alla heildina. Það er erfitt fyrir leikmenn að segja nei við Celtic, Ajax, Feyenoord, Arsenal eða hvaða félag sem er. Það eru ekki margir sem segja nei við stóru félögunum en svo er það alltaf stóra spurningin hvað sé rétt ákvörðun að taka hverju sinni."
„Það er engin ein leið rétt, eitthvað getur tekist hjá sumum en ekki hjá öðrum. Fótboltinn er þannig að þú getur lent í meiðslum eða þjálfaraskiptum. Ég lenti alltof oft í því að ég var kannski nýkominn í nýtt lið og þá var skipt um þjálfara, farið í aðrar áherslur og öllum ruslað út. Þetta er harður heimur en þá þarf líka að vera með góðan stuðning."
Margþætt og spennandi starf
Er þetta meira spennandi en þjálfun?
„Já, annars væri ég nú ekki að fara út í þetta. Ég hef fengið helling af símtölum, mér var boðið að vera aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari bæði í efstu og næstefstu deild. Ég hef lært margt á síðastliðnum tveimur árum í starfi þjálfara og mér þótti það mjög skemmtilegt og gefandi. Mér finnst ég í raun geta tekið með mér inn í þetta starf það sem gaf mér mest út úr þjálfuninni, þ.e. að vera ungum leikmönnum ráðgjafi og stuðningur. Að hafa sjálfur verið í atvinnumennsku styrkir mína aðkomu enn frekar. Óli fór ekki í atvinnumennsku og ég kem með aðeins öðruvísi vinkil á þetta. Ég skil forvitnina hjá leikmönnum og óþolinmæðina sem fylgir þessu að vera einhvers staðar og vilja vita hvað sé í gangi."
Fara til hægri eða vinstri
Er einhver tímapunktur á ferlinum þínum þar sem þú manst eftir því að umboðsmaðurinn þinn gerði annað hvort vel eða illa?
„Allar fótboltalegar ákvarðanir hafa mótað mann á einn eða annan hátt en auðvitað eru augnablik á ferlinum þar sem maður hugsaði hvort það hefði ekki verið betra að fara til hægri í stað þess að fara til vinstri. Hvort við Emmi hefðum ekki frekar átt að fara til Hollands þar sem við hefðum búið hjá fjölskyldu í stað þess að fara til Glasgow 18 ára gamlir og búa einir í penthouse íbúð í miðri borginni. Ég myndi a.m.k. ekki ráðleggja ungum leikmanni það í dag enda voru það við Emmi sem tókum þær ákvarðanir á sínum tíma."
„Það er hlutverk umboðsmannsins að ráðleggja leikmönnum um rétt skref en á endanum er það auðvitað leikmannsins að velja það sem hugnast honum best. Minn umboðsmaður var mér ætíð mikill stuðningur og fylgdi mér í gegnum sorgir og sigra míns fótboltaferils. Ég er t.d. hvað þakklátastur með Ferencvaros-ævintýrið sem kom með samböndunum hans Óla. Ég og fjölskyldan mín hefðum ekki viljað missa af því."
Planið að vera áfram í sjónvarpinu
Þú hefur verið sérfræðingur í sjónvarpi, ætlar þú að vera í því áfram?
„já, það er allavega planið á meðan það er eftirspurn eftir því. Mér hefur fundist það mjög skemmtilegt og gerir það að verkum að maður er inni í hringiðunni og fylgist mjög vel með."
Talsverður áhugi á Stefáni
Kjartan lék sem framherji á sínum ferli. Einn af þeim sem Óii er með á sínum snærum er Stefán Ingi Sigurðarson sem átti frábært tímabil með Sandefjord í Noregi og mun líklega færa sig um set í vetur.
„Ég veit að það er mikill áhugi á honum og skiljanlega. Það eru ákveðin félög sem hafa meiri áhuga en önnur. Það er áhugi frá Bretlandi, Svíþjóð, Noregi og víðar. Stefán er hjá Sandefjord þar sem ég var á sínum tíma. Ég held meira að segja að það sé ennþá sami búningastjóri þar og var þegar ég var leikmaður hjá félaginu, enda eru það yfirleitt mikilvægustu mennirnir. Það eru hins vegar fleiri leikmenn en Stefán á listanum hjá okkur sem mikill áhugi á og það verður spennandi að sjá hvar þeir enda. Það er gaman að taka þátt í þessu."
Kjartan er þegar byrjaður að vinna með Óla.
Athugasemdir



