Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
banner
   þri 30. desember 2025 22:51
Ívan Guðjón Baldursson
„Getum ekki sætt okkur við jafntefli gegn Bournemouth"
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Enzo Maresca þjálfari Chelsea gaf ekki kost á sér eftir 2-2 jafntefli hjá Chelsea gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Willy Caballero aðstoðarþjálfari svaraði spurningum í fjarveru Maresca.

Chelsea lenti undir á heimavelli en snéri stöðunni við og komst í forystu. Staðan var þó jöfn 2-2 í leikhlé og tókst hvorugu liði að skora í síðari hálfleiknum, þrátt fyrir yfirburði Chelsea.

Bæði lið fengu góð færi í fyrri hálfleiknum þó að gestirnir frá Bournemouth hafi verið talsvert hættulegri í sínum aðgerðum og óheppnir að skora ekki fleiri mörk.

„Enzo er búinn að vera veikur síðustu daga og bað mig um að taka fréttamannafundinn. Hann var á hliðarlínunni í dag því það er mikilvægt fyrir leikmenn að hafa hann þar, en hann er með einhverja flensu. Hann er með hita og þarf að jafna sig," sagði Caballero við fjölmiðla.

„Mér líður eins og stuðningsmönnum, við misstum af tækifærinu til að vinna leikinn í síðari hálfleik. Við vorum góðir á boltanum, við sköpuðum góð færi, fengum vítaspyrnu og gerðum frábært mark. Í seinni hálfleik neyddum við Bournemouth til að verjast í eigin vítateig nánast allan tímann en það vantaði úrslitasendinguna. Þetta er eitthvað sem við verðum að æfa og bæta. Við þurfum líka að læra að drepa leiki þegar við erum með forystuna, við megum ekki halda áfram að missa niður forystuna eins og við höfum verið að gera í síðustu leikjum.

„Við gerðum meira heldur en Bournemouth til að vinna þennan leik en því miður tókst okkur ekki að gera sigurmark."


Bæði mörkin sem Chelsea fékk á sig komu eftir löng innköst frá Bournemouth.

„Við vinnum mikið í föstum leikatriðum og treystum þjálfarateyminu okkar. Við höfum verið að lagfæra varnarleikinn í föstum leikatriðum en vandamálið er að í dag þá gerðist þetta tvisvar. Við erum mjög vonsviknir með að fá tvö mörk á okkur með sama hætti.

„Við erum vonsviknir með að gera jafntefli. Við unnum HM síðasta sumar og getum ekki sætt okkur við að gera jafntefli við Bournemouth hvort sem það er á heimavelli eða útivelli."

Athugasemdir
banner
banner
banner