Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
banner
   þri 30. desember 2025 20:45
Ívan Guðjón Baldursson
Neves ekki búinn að samþykkja nýjan samning
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Portúgalski miðjumaðurinn Rúben Neves gæti verið á leið aftur til Evrópu eftir þrjú ár hjá Al-Hilal í Sádi-Arabíu.

Neves er 28 ára gamall og rennur samningur hans við Al-Hilal út næsta sumar. Hann er með samningstilboð frá félaginu á borðinu en hefur ekki ennþá samþykkt og er því frjálst að ræða við önnur félög eftir áramót.

Neves var fyrirliði hjá Wolves í ensku úrvalsdeildinni þegar Al-Hilal keypti hann fyrir tæpar 50 milljónir punda sumarið 2023. Hann er enn í dag yngsti fyrirliði í sögu Meistaradeildarinnar eftir að hafa borið fyrirliðaband FC Porto aðeins 18 ára gamall. Með því bætti hann gamalt aldursmet Rafael van der Vaart.

Neves er fastamaður í ógnarsterku landsliði Portúgal með 63 leiki að baki. Á dvöl sinni hjá Wolves varð hann frægur fyrir magnaða skottækni sína þar sem hann skoraði reglulega með föstum og hnitmiðuðum skotum utan vítateigs.

Manchester United, Newcastle United, Tottenham og Atlético Madrid eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við Neves undanfarnar vikur.

Miðjumaðurinn öflugi er lykilmaður í sterku liði Al-Hilal og vilja stjórnendur félagsins ólmir semja við hann. Hann er með tveggja ára risasamning á borðinu en ekki er víst að hann vilji vera áfram í Sádi-Arabíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner