Titilbaráttunni á Englandi er lokið og er það Manchester City sem stendur uppi sem sigurvegari deildarinnar þriðja árið í röð en Arsenal veitti liðinu harða samkeppni stærstan hluta leiktíðarinnar.
Arsenal var á einum tímapunkti með átta stiga forystu á toppnum og það þegar tíu leikir voru eftir.
Oft hefur verið talað um breiddina hjá Arsenal. Liðið er með frábært byrjunarlið en það hefur vantað fleiri háklassa leikmenn til að koma liðinu yfir línuna.
Það varð þeim að falli og tókst Man City að saxa á forskotið í apríl áður en liðið tók yfir í maí og gerði út um titilbaráttuna. Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports, segir liðið hafa klúðrað hlutunum.
„Þegar þú horfir á byrjunarlið Arsenal þá sérðu að það er ekki milljón mílum frá því sem við höfum séð hjá City. Liðin spila mjög svipað en Saka hefur spilað hvern einasta leik og sama má segja um síðasta tímabil. Þessir bestu leikmenn geta ekki spilað alla leiki.“
„Kevin De Bruyne spilar ekki hvern einasta leik fyrir Man City og fyrir mér er hann líklega besti leikmaður úrvalsdeildarinnar síðustu fjögur eða fimm ár. Mestu vonbrigðin eru hins vegar þau að seinni hluta tímabilsins hefur þetta verið svakalegt fall. Það er ekki hægt að neita því.“
„Arsenal var með 50 stig eftir fyrri umferðina. Þegar þú ferð inn í tímabil þá veistu að þú þarft að fá yfir 90 stig til að vinna titilinn og það er útaf Man City.“
„Arsenal gæti endað með 84 stig og þó við segjum að þeir séu óheppnir þá hafa þeir gert allt sem þeir geta. Þetta er ekki stórkostleg niðurstaða þegar við tölum um að þrýsta verulega á önnur lið. Liverpool fékk rúmlega 90 stig og vann samt ekki deildina. Þú verður að fá 90 stig eða meira.
„Arsenal var á góðri leið með að fara þangað en þetta hefur verið stórt fall síðari hlutann og ein stærsta ástæðan er að það vantar breiddina. Þeir þurfa að fá fleiri gæðaleikmenn inn í hópinn.“
Það má búast við því að það verði nóg að gera hjá Arsenal á markaðnum í sumar. Declan Rice, miðjumaður West Ham, er á óskalistanum en þrátt fyrir það telur Carragher að möguleikar Arsenal á að komast í svipaða stöðu á næsta tímabili séu ekki miklir.
„Ég verð að fara aftur og hugsa um hversu oft Arsenal verður í stöðu þar sem liðið er með átta stiga forystu þegar tíu leikir eru eftir. Þetta var mögnuð staða og þeir klúðruðu því og við getum ekki neitað því.“
„Þeir áttu stórkostlegt tímabil en það kæmi mér verulega á óvart ef liðið kemst í þessa stöðu á næsta tímabili miðað við gæðin í liði Man City. Fyrir mér var Man City ekki hið raunverulega Man City í tvo þriðjunga af tímabilinu en það er eins og eftir landsliðspásuna sem þeir tóku sig saman í andlitinu og þá sáum við liðið sem við höfum fylgst með síðustu fjögur eða fimm árin.“
„Arsenal hefur verið stórkostlegt og hvað hefði enska úrvalsdeildin eiginlega verið án þeirra? Liðið gaf okkur bardaga og alvöru baráttu en því miður fjaraði það út.“
Athugasemdir