Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 20. júní 2024 14:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Víkingar heyrðu í Gumma Tóta - „Skoðum það í rólegheitum"
Á að baki fimmtán landsleiki.
Á að baki fimmtán landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson, Gummi Tóta, er án félags sem stendur. Hann sagði í viðtali í Þungavigtinni að hann hefði hafnað nýjum samningi hjá OFI Crete í Grikklandi en væri með tilboð á borðinu frá öðru grísku félagi.

Gummi er 32 ára og hefur síðustu ár spilað sem vinstri bakvörður eftir að hafa þar á undan spilað á miðjunni. Hann hefur ekki útilokað heimkomu.

Hann var spurður í Þungavigtinni hvort það væri möguleiki á heimkomu í sumar.

„Algjörlega. Ég hef aldrei lyft bikarnum á Íslandi, komst tvisvar sinnum nálægt því með ÍBV. Ég ætla ekki að sitja hérna og útiloka neitt. Mig langar að njóta þess að spila fótbolta í nokkur ár í viðbót. Á góðum degi er ekkert skemmtilegra en að spila fótbolta."

Valsmenn ekki talað við Gumma
Af íslenskum félögum hefur Gummi hvað mest verið orðaður við Val. Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var spurður út í Gumma eftir jafnteflið gegn Víkingi á þriðjudagskvöld.

„Við höfum ekki talað við hann, skoðum það í rólegheitum. Glugginn opnar ekki fyrr en eftir tæpan mánuð. Ég held að hans hugur sé að vera áfram úti. Ef hann kemur heim þá skoðum við það. Við erum hrikalega ánægðir með hópinn okkar og erum mjög vel mannaðir, erum því ekki í neinum þannig hugleiðingum. Það þarf eitthvað óvænt að koma upp," sagði Arnar á þriðjudagskvöld.

Víkingar hleruðu Gumma í vetur
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, var spurður hvort Víkingar myndu mögulega reyna að fá landsliðsbakvörðinn.

„Við skoðum alla stráka sem eru góðir í fótbolta, og Gummi er það svo sannarlega. Ég þekki hann ágætlega, vorum saman í nokkrum verkefnum og ég heyrði í honum í vetur, það er ekkert launungarmál. En ekkert staðfest (hvort við reynum að fá hann núna), við munum bara skoða það í rólegheitunum. Það er nægur tími til stefnu þannig lagað."

„Við erum með mjög flotta vörn og Kalli (Karl Friðleifur Gunnarsson) hefur staðið sig frábærlega í vinstri bakverðinum þá leiki sem hann hefur spilað þar og svo er Jón Guðni (Fjóluson) búinn að leysa þetta vonum framar líka. Það er aðeins breytt staða hjá okkur, erum með leikmenn innanhúss sem hafa staðið sig það vel að við erum ekki beint í einhverri leit. Staðan var svolítið önnur í vetur þegar þessi staða var svolítið óskrifað blað, Jón Guðni var þá ennþá meiddur og svo framvegis,"
sagði Kári.
Arnar Grétars: Mér fannst við miklu betri í dag
Athugasemdir
banner
banner
banner