Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 21. apríl 2022 11:10
Elvar Geir Magnússon
Besta lið 1. umferðar - Með sókn skal deild byggja
Atli Sigurjónsson átti tvær stoðsendingar í Safamýri.
Atli Sigurjónsson átti tvær stoðsendingar í Safamýri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkings.
Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ásgeir Sigurgeirsson (til hægri) er í úrvalsliðinu.
Ásgeir Sigurgeirsson (til hægri) er í úrvalsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki í 1. umferð Bestu deildarinnar sem hófst með 2-1 sigri meistara Víkings gegn FH á þriðjudaginn og lauk með 4-1 sigri KR gegn nýliðum Fram í gær. Það er því vel við hæfi að úrvalslið umferðarinnar sé rækilega sóknarsinnað.

Arnar Gunnlaugsson heldur áfram að vinna fótboltaleiki og er þjálfari úrvalsliðsins. Þá eru tveir leikmenn hans hjá Víkingi í liðinu; Halldór Smári Sigurðsson er í vörninni og hinn nítján ára gamli Ari Sigurpálsson í sókninni en hann skoraði fyrra mark Víkinga gegn FH og jafnaði í 1-1.

Þrátt fyrir tap þá á FH leikmann í úrvalsliðinu, varnarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson var valinn maður leiksins. Hann kom margoft í veg fyrir að Víkingar kæmust í gegn.



Víkingum var spáð toppsæti Bestu deildarinnar í spá Fótbolta.net fyrir mótið en Breiðabliki öðru sæti. Blikar byrjuðu nýtt tímabil á afskaplega öruggum 4-1 sigri gegn Keflavík þar sem Ísak Snær Þorvaldsson var í sóknarlínu Kópavogsliðsins og skoraði tvívegis. Jason Daði Svanþórsson skoraði einnig í leiknum og er í úrvalsliðinu.

Beitir Ólafsson markvörður KR varði vítaspyrnu gegn Frömurum og ver mark úrvalsliðsins. Atli Sigurjónsson átti tvær stoðsendingar og var valinn maður leiksins.

Nýliðar ÍBV veittu Val harða keppni á Hlíðarenda en á endanum vann Valur 2-1. Guðmundur Andri Tryggvason var besti maður vallarins en hann skoraði fyrra mark Vals og lagði upp sigurmarkið. Birkir Már Sævarsson er einnig í úrvalsliðinu.

Jóhann Árni Gunnarsson fer vel af stað í Stjörnubúningnum en hann skoraði í 2-2 jafntefli gegn ÍA í Garðabænum. Þá vann KA 1-0 sigur gegn Leikni á Dalvík þar sem Ásgeir Sigurgeirsson lagði upp eina mark leiksins og var valinn maður leiksins.

Hver er leikmaður umferðarinnar? - Það kemur í ljós í Innkastinu, hlaðvarpsþætti þar sem umferðin verður gerð upp. Þátturinn kemur inn á Fótbolta.net og allar veitur seinni hluta dagsins.

Dómari umferðarinnar: Dómararnir héldu uppteknum hætti frá síðasta sumri og afskaplega lítið var um vafaatriði í umferðinni. Besti dómari umferðarinnar var Vilhjálmur Alvar Þórarinsson sem dæmdi opnunarleikinn á heimavelli hamingjunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner